Brynjar Þór Björnsson, áttfaldur íslandsmeistari í körfubolta hefur ákveðið að taka sér hlé frá körfuboltaiðkun. Brynjar ætlar að söðla um og spila með handboltaliði Vals á næsta ári. Í stuttu samtali við Karfan.is sagðist Brynjar hafa gert eins árs samning við Val um að spila handbolta með félaginu.
 
 
Ljóst er að þetta er mikill missir fyrir KR og körfuboltann á Íslandi en Brynjar hefur verið einn litríkasti karakterinn í Dominos deildinni undanfarin ár. 
 
 
Brynjar hefur lengi átt sér draum um að spila handbolta í efstu deild á Íslandi og telur sig geta aðstoðað við að búa til sigurhefð að Hlíðarenda. Brynjar leikur sem hornamaður og í samtali við Karfan.is sagði Brynjar: „Það er svo auðvelt að spila handbolta, ég lauma mér bara út í horn og set nokkrar skrúfusnuddur framhjá sekkinum í markinu“.
 
 
Brynjar var með 12,5 stig og 3 fráköst að meðaltali fyrir KR á nýliðnu tímabili en hvort það muni aðstoða Brynjar í handboltanum mun koma í ljós. Vinir Brynjars eru að steggja hann í dag og fréttin því hluti af því.