Bakvörðurinn Bryndís Hanna Hreinsdóttir hefur samið við Breiðablik um að leika með félaginu á komandi tímabili í Dominos deild kvenna. Þetta staðfesti hún við Körfuna fyrr í dag. Bryndís, sem er 27 ára gömul, er uppalin í Haukum, en hefur spilað með Stjörnunni síðan árið 2012. Í 25 leikjum á síðasta tímabili skilaði hún 6 stigum, 4 fráköstum, 2 stoðsendingum og stolnum bolta að meðaltali í leik.

 

Bryndís er ein nokkurra nýrra leikmanna sem að Breiðablik hefur samið við á dögunum, en fyrr í vikunni var tilkynnt að liðið hefði samið við Björk Gunnarsdóttur og Ernu Freydísi Traustadóttur úr Njarðvík fyrir komandi tímabil.

 

 

Um félagaskiptin sagði Bryndís:

"Mér fannst vera kominn tími á breytingu og nýjar áskoranir hjá mér og tel ég þessi skipti vera rétt skref fyrir mig. Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni hjá Breiðablik og lýst mér mjög vel á hópinn og þjálfarann. Ég er búin að vera hjá Stjörnunni síðustu 6 ár og hefur sá tími verið dýrmæt reynsla fyrir mig enda Stjarnan frábær klúbbur."