Tindastóll vann í gær KR í öðrum leik úrslitaeinvígis liðanna í Dominos deild karla. Sigurinn var nokkuð óvæntur í því sem komið var en Tindastóll var án Antonio Hester og leikurinn var á heimavelli KR.

 

Eðlilega var hitinn mikill hjá liðunum enda mikið í húfi, bikarinn sem allir í deildinni vilja vinna. Dómarar leiksins voru mikið til umræðu og sitt sýndist hverjum.

 

Það vakti athygli þegar Björgvin Björnsson sem gegnir stöðu varaformanns aga-og úrskurðarnefndar KKÍ birti tíst þar sem hann gagnrýndi einn dómara leiksins harðlega. Tístið stóð í nokkra klukkutíma en hafði verið eytt í morgun. Í raun gekk hann svo langt að biðja Ísak Ernir Kristinsson dómara leiksins að leggja flautuna á hilluna. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Björgvin gagnrýnir dómara á Twitter.

 

 

Þórólfur Þorsteinsson formaður Aga-og úrskurðarnefndar sagði þetta flókið mál en sagði það víðtæka venju innan nefndarinnar að gæta hlutleysis. Hann benti þó á að nefndarmenn væru allir sjálfboðaliðar því ekki á ábyrgð nefndarinnar að svara beint fyrir einstaka ummæli nefndarmanna.

 

Í samtali við Karfan.is var greinilegt að Björgvin H. Björnsson sá að sér. „.Þetta var tíst sent út í hita leiksins á með leik stóð. Það hefur verið fjarlægt eftir að ég sá að mér. Þetta var full harkaleg gagnrýni af minni hálfu á einn af okkar efnilegustu dómurum. Við sem horfum á okkar fallegu íþrótt lifum okkur inn í leikinn og stundum ber kappið fegurðina ofurliði.“

 

Þegar Hannes S. Jónsson formaður KKÍ var spurður álits vegna þessa tók hann fram að aga-og úrskurðarnefnd félagsins væri kosin á þingi sambandsins.  „Sú stjórn er ekki eins og aðrar nefndir sambandsins sem eru skipaðar af stjórn og starfa á vegum stjórnar. Allir þeir einstaklingar sem eru í stjórn og nefndum sambandsins verða auðvitað að passa hvað þeir skrifa og segja hvort sem það er á samfélagsmiðlum eða annars staðar því þessir einstaklingar eru í forsvari fyrir íþróttina okkar og verða að gæta fyllsta hlutleysis.“  sagði Hannes og bætti við:

 

„Ísland er lítið land og körfuboltafjölskyldan að sama skapi lítil en vinnur þétt og vel saman. Allir þekkja alla og því getur verið mjög krefjandi að þurfa að sýna hlutleysi alltaf og ég tala nú ekki um þegar einnig er um skyldleika að ræða. En á sama tíma skilur maður vel að það eru miklar tilfinningar og við erum jú öll í þessu þar sem við elskum körfubolta og þykir vænt um íþróttina okkar. Við þurfum öll að passa okkur og ég segi það ekki nógu oft við erum öll fyrirmyndir, verðum því að huga vel að því sem við segjum og skrifum.“

 

Ljóst er að sjálfboðaliðar KKÍ eru tengdir við ákveðin félög en allir leggja sig þó fram við hlutleysi í störfum sínum. Það orkar þó tvímælis þegar varaformaður nefndar gagnrýnir dómara svo harðlega. Það dylst engum að Björgvin hefur unnið ötullega fyrir körfuknattleikshreyfinguna og KR í gegnum tíðina og mun gera áfram. Hann hefur viðurkennt mistök sín þegar tístið fór út og málinu þar með væntanlega lokið.