Valskonur unnu nokkuð óvæntan sigur á Keflavík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Dominos deildar kvenna. Leikurinn fór fram í Keflavík og má því segja að Valur hafi stolið heimaleikjaréttinum með sigri. Sigra þarf þrjá leiki til að tryggja sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins:

 

Fyrsti leikhluti var kaflaskiptur. Valsarar virtust vera með spennustigið rétt stilt strax á upphafssekúndunum en Keflavík leiddi þegar leið á leikhlutann. Thelma Dís setti 12 stig í leikhlutanum fyrir Keflavík.

 

Keflavík setti ekki stig í nærri fimm mínútur í upphafi annars leikhluta og Valsarar komu sér í fína forystu. Liðið virtist ná betra flæði þegar Aalyah var á bekknum en flæðið átti eftir að halda með hennar þegar leið á leikinn. Staðan í hálfleik var 38-38, allt í járnum en tilfinningin samt sú að gestirnir væru líklegri. 

 

Svipað var uppá teningnum í byrjun seinni hálfleiks, leikurinn var mjög kaflaskiptur í þriðja leikhluta og lítið mátti á milli þeirra muna. Dagbjört Dögg tók leikinn yfir í seinni hálfleik, allir góðir hlutir fóru í gegnum hana og tókst henni að stjórna leik Vals vel. 

 

Aalyah Whiteside var frábær í síðasta leikhluta, tók fjölda af sóknarfráköstum og fékk auðveldar körfur í framhaldi af því. Þegar 2:40 mínútur voru eftir komust Valsarar í ellefu stiga forystu sem var mesta sem liðið hafði náð í leiknum. 

 

Lokastaðan var 77-88 fyrir Valskonum sem eru þar með búnar að hirða heimaleikjaréttinn af Keflavík og leiða einvígið 1-0. 

 

 

Hetjan: 

 

Margir leikmenn Vals áttu þrusuleik í kvöld. Aalyah Whiteside átti svakalegan leik í kvöld og endaði með 39 stig og fimmtán fráköst. Hún hitti frábærlega í leiknum og var ekki að þvinga mikið af körfum sjálf eins og hún hefur átt til. Dagbjört Dögg átti frábæran leik einnig, stjórnaði sóknarleiknum vel. Bergþóra Holton var einnig mjög skilvirkan leik, hitti vel og setti stór skot. 

 

Kjarninn: 

 

Þetta var risasigur fyrir Val. Liðið spilaði mjög vel, nýtti sér sína styrkleika vel gegn Keflavík og var alltaf líklegra liðið. Varnarlega tókst liðinu að lágmarka stigaskor Brittany Dinkins sem var mögulega helsta ástæðan fyrir sigrinum. Frammistaðan var samt ekki fullkomin, liðið gerði of mikið af klaufalegum mistökum sem gáfu oftar en ekki auðveldar körfur hinumegin. 

 

Varnarleikur Keflavíkur var ansi slakur í dag. Allan ákafa vantaði í liðið og var það ansi ólíkt sínum einkennum. Dinkins fekk illa að setja stig á körfuna en gerði vel í að dreifa boltanum og stjórna leiknum. Thelma Dís var öflug allan leikinn en sóknarlega var heilt yfir lítið uppá liðið að klaga. Nú er Keflavík nálægt því að vera með bakið uppvið vegg og þarf liðið á sigri að halda í Valshöllinni til að snúa einvíginu sér í hag á ný. 

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Skúli B. Sigurðsson) 

 

Viðtöl eftir leik: 

 

Umfjöllun / Ólafur Þór

Myndir / Skúli Sig