Helgin hefur verið löng fyrir stuðningsmenn Hauka og Vals eftir oddaleiknum risavaxna sem fram fer í kvöld. Í boði er Íslandsmeistaratitill fyrir sigurvegarann og því hreinn úrslitaleikur framundan.
Staðan í einvíginu er 2-2 þar sem bæði liðin hafa unnið sína heimaleiki. Síðasti leikur fór fram í Valshöll þar sem Haukar leiddu 2-1 og gátu tryggt titilinn með sigri. Sá leikur var gríðarlega spennandi og réðst á lokaandartökum leiksins.
Þetta er sjöundi oddaleikurinn í úrslitaeinvígi efstu deildar kvenna frá því úrslitakeppnin var sett á árið 1993. Sá síðasti fór einmitt einnig fram á Ásvöllum árið 2016 þar sem Snæfell stóð uppi sem sigurvegari.
Í fyrri sex oddaleikjunum í sögunni hefur heimaliðið staðið uppi sem sigurvegari í þrjú skipti og þrisvar hefur það gerst að útiliðið lyftir titlinum. Í sögulegu ljósi má því segja að líkurnar séu jafnar og það geti því ekkert hjálpað til við að spá fyrir um leik kvöldsins. Haukar hafa tvisvar áður leikið oddaleik um titilinn, unnið einu sinni og tapað einu sinni. Síðast þegar Haukar urðu Íslandsmeistarar var það einmitt eftir oddaleik gegn KR 2009.
Listi yfir oddaleiki um Íslandsmeistaratitilinn:
1994: Keflavík 68-58 KR
2000: KR 43-58 Keflavík
2002: ÍS 64-68 KR
2009: Haukar 69-64 KR
2010: KR 84-79 Hamar
2016: Haukar 59-67 Snæfell
2018: Haukar ?-? Valur
Leikurinn hefst kl 19:15 að Ásvöllum, miðasala hefst þar kl 16:00 á morgun en von er á gríðarlegri stemmningu. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og verður gerð góð skil hér á Karfan.is í kvöld.