Eftir það sem virtist um 17 ára langt hlé á úrslitakeppni Domino´s-deildar karla er boltinn loksins farinn að rúlla á nýjan leik. Sjálf undanúrslitin hefjast í kvöld með viðureign ÍR og Tindastóls kl. 19:15 í Hertz-Hellinum í Breiðholti.

ÍR hefur heimaleikjaréttinn í seríunni en þeir Frændur ehf. luku deildarkeppninni í 2. sæti en Tindastóll í 3. sæti með jafnmörg stig en ÍR hafði betur innbyrðis þar sem ÍR vann báða deildarleikina.

Eins og flestum er kunnugt vantar Ryan Taylor í lið ÍR fyrstu tvo leikina í þessari seríu þar sem hann hlaut þriggja leikja bann á dögunum. Taylor hefur þegar setið af sér einn leik þar sem ÍR lagði Stjörnuna og komst með þeim sigri í undanúrslit.

Í kvöld hefjast einnig úrslit 1. deildar kvenna þar sem KR og Fjölnir eigast við. KR er með heimaleikjaréttinn í seríunni en viðureign kvöldsins hefst kl. 19:15 í DHL-Höllinni. KR fór ósigrað í gegnum deildarkeppnina og sópaði Grindavík út í undanúrslitum svo ef Fjölnir ætlar sér í Domino´s-deildina næsta tímabil þurfa Grafarvogskonur að gera það sem engu liði í 1. deild hefur tekist til þessa, vinna KR!

Mynd/ Ólafur Þór