Samkvæmt heimildum Jonathan Givony hjá Draft Express / ESPN mun miðherji íslenska landsliðsins og Valencia, Tryggvi Snær Hlinason, skrá sig í nýliðaval NBA deildarinnar sem fram fer þann 21. júní næstkomandi í New York. Mikið hefur verið rætt og ritað þennan veturinn um hvort hann fari, en færi hann ekki núna, þá hefði hann sjálfkrafa verið skráður á næsta ári vegna aldurs. 

 

Haft var samband við Tryggva vegna þessara frétta og staðfesti hann við Körfuna að þetta væri það sem væri að gerast, að hann væri búinn að setja nafn sitt í pottinn. Þó hann áréttaði að svo væri svosem ekkert víst hvað ætti eftir að gerast.

 

Þó Tryggvi hafi skráð nafn sitt til leiks í nýliðavalinu núna, er alls ekki víst að það verði þar þegar að það fer fram. Því geti verið í lagi fyrir leikmanninn að skrá sig til þess að lið deildarinnar skoði hann betur, áður en hann dregur nafn sitt til baka og fer síðan sjálfkrafa í það á næsta ári. 

 

Meira: Tryggvi á topp 100 fyrir NBA nýliðavalið 2018