Úrslitaeinvígi Dominos deildar karla hefst í kvöld þegar Skagfirðingar fá KR í heimsókn. Þessu sömu lið mættust einnig í bikarúrslitum fyrr á árinu þar sem Tindastóll hafði betur en liðið valtaði yfir KR í þeim leik. Einnig mættust þessi lið í úrslitaeinvíginu fyrir þremur árum en KR vann þá 3-1. 

 

Karfan.is fékk Trausta Eiríksson leikmann ÍR til að spá fyrir um einvígið sjálft og leik kvöldsins. Trausti hefur nýlokið leik með ÍR sem féll úr leik fyrir Tindastól fyrir nokkrum dögum. 

 
Hvað er að fara að gerast í leik kvöldsins?
 
Síkið verður troðið, upphitunar playlistinn verður í hæsta gæðaflokki en körfuboltinn verður ekki fallegur. Reikna með leik þar sem liðin eru meira að þreifa fyrir sér og þetta mun fara hægt af stað en endar síðan í einhverjum spennutrylli þar sem Stólunum tekst að verja heimavöllinn. KR fær engar sumargjafir frá Tindastól á morgun.
 
Sama hvernig leikurinn fer mun einhver fara í viðtal og segja „Staðan er bara 1-0“.
 
Við hverju má búast í þessu einvígi?
 
Í grunninn er þetta einvígi bara reynsla á móti greddu. Tindastóls liðið er troðið af hæfileikum en að spila við KR í fullri DHL höll í lokaúrslitum er eins mikill „endakall“ og hægt er að hugsa sér. Tindastóll mun lenda í veseni með hæð KR en hraði Tindastóls liðsins mun valda KR vandræðum. Einvígi sem einstaklega gaman verður að fylgjast með í þessari seríu verða Hester gegn Pavel/Kristó og svo Walker/Jón Arnór gegn Sigtrygg.
 
Hvernig spáiru einvíginu?
 
Eina sem ég er pottþéttur á er að þetta fer ekki 3-0, það er líklegra að ÍR ráði hárprúða menn í þjálfarateymið heldur en að sópurinn verði á lofti. Áður en Marcus Walker mætti aftur í Vesturbæinn hefði ég trúað Stólunum til að klára þetta en hann gefur KR nákvæmlega það sem þeim vantaði varnarlega, hvort það verði nóg er þó annað mál.
 
Held að það hafi ekki verið jafn erfitt að spá fyrir um úrslitaeinvígið í mörg ár, ég hef skipt um skoðun um það bil fimm sinnum seinustu 10 mínútur, en í augnablikinu hef ég trú á 3-1 sigri KR. Tindastóll vinnur fyrsta leikinn en KR tekur næstu þrjá. Vinni Tindastóll þó einn leik í Vesturbæ verða þeir Íslandsmeistarar.
 
Leikurinn hefst kl 19:15 í kvöld og fer fram í Síkinu á Sauðárkróki. Hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport  auk þess sem honum verður gerð góð skil á Karfan.is í kvöld.