Fyrir helgi var æfingahópur landsliðsins fyrir A-deild evrópumóts U20 landsliða valinn. Ljóst er að stórt verkefni er framundan fyrir liðið en Íslenska liðið endaði í áttunda sæti á síðasta ári og þá var Tryggvi Snær Hlinason valinn í úrvalslið mótsins. 

 

Hópurinn samanstendur af 24 leikmönnum sem eru fæddir á árunum 1998 og 1999. Það er eitt nafn sem kemur nokkuð á óvart í hópnum en það er nafn Tómasar Atla Bjarkasonar. 

 

Tómas Atli Bjarkason er búsettur í Danmörku og hefur búið þar alla sína ævi. Foreldrar hans eru báðir íslenskir. Tómas á hinsvegar að baki nokkra unglingalandsliðsleiki með danska landsliðinu. Nú síðasta sumar með U18 landsliðinu sem mætti því íslenska meðal annars á norðurlandamótinu. 

 

Nú virðist Tómas Atli hinsvegar vera á leið á Evrópumót með Íslenska liðinu en samkvæmt heimildum Karfan.is er verið að ganga frá leyfismálum svo það geti gengið eftir. Það eru ekki margir sem ná að spila með tveimur landsliðum fyrir tuttugu ára aldur en Tómas virðist ætla að ná því í sumar gangi allt eftir. 

 

Síðustu tvö ár hefur Tómas leikið með Svendborg Rabbits í dönsku úrvalsdeildinni. Á fyrra ári sínu var Arnar Guðjónsson þjálfari liðsins en hann mun einmitt þjálfa U20 landslið Íslands í sumar. Tómas hefur einnig leikið hjá EVN skólanum þar sem Craig Pederson landsliðsþjálfari og Geoff Koitila fyrrum þjálfari Snæfells voru þjálfarar hans. 

 

Íslenska U20 landsliðið leikur í A-deild evrópumótsins í Þýskalandi í sumar. Mótið fer fram þann 14-22 júlí næstkomandi en þjálfari liðsins er Arnar Guðjónsson en honum til aðstoðar verða Baldur Þór Ragnarsson og Israel Martin. 

 

Mynd / Ólafur Þór Jónsson – Tómas Atli með danska U18 landsliðinu gegn því Íslenska á NM 2017.