Þeir sem héldu að ÍR myndi sigla hljóðlega útúr úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta geta farið að fylgjast með annarri íþrótt.  Eftir tap á heimavelli í fyrsta leik seríunnar komu þeir brjálaðir til leiks í Síkinu í kvöld og unnu geysisterkan sigur á heimamönnum í Tindastól 97-106.

 

Leikurinn byrjaði jafnt og í stöðunni 8-9 þurfti að gera hlé á leiknum vegna bilunar í skotklukku.  Pásan virtist fara betur í heimamenn sem kláruðu fyrsta leikhluta sterkt og komust í 8 stiga forystu 24-16 með góðri körfu frá Pétri Rúnari í lokin.  Gestirnir settu svo fyrstu 7 stig annars leikhluta og baráttan virtist öll vera þeirra megin.  Heimamenn voru klaufalegir í sókninni og ÍR-ingar gengu á lagið og höfðu 6 stiga forystu í hálfleik eftir þrist frá Matta sem var að spila eins og engill. 

 

Gestirnir héldu forystunni út 3ja leikhluta og voru oft að skora auðveldar körfur gegn sofandi vörn heimamanna.  Fjórði leikhlutinn þróaðist með svipuðum hætti, Tindastóll náði nokkrum sinnum að komast nálægt en vörnin hélt ekki og gestirnir skoruðu nánast að vild og enduðu með 106 stig sem er eitthvað sem ekki hefur sést í Síkinu í vetur.  Tindastólmenn verða að girða sig í brók ætli þeir sér að komast í úrslitin og ekki verður verkefnið auðveldara eftir að Ryan Taylor snýr aftur í lið ÍR eftir leikbann.

 

Þáttaskil

Það sem skildi á milli liðanna í kvöld var fyrst og fremst barátta.  ÍR var með bakið upp við vegg og brugðust við á hárréttan hátt.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Jafnt var í flestum tölfræðiþáttum en ÍR hitti töluvert betur úr sínum þriggja stiga skotum og voru með 120 framlagsstig í leiknum gegn 93 heimamanna. Þeir hittu íka mun betur úr vítum.

 

 

Hetjan

Matthías Orri sneri aftur með hvelli í lið ÍR en hann hefur ekki verið að sýna sitt rétta andlit í síðustu tveimur leikjum.  Matti endaði með 27 stig og 8 stoðsendingar.  Danero Thomas átti líka frábæran leik með 28 stig og 9 fráköst.  Hjá heimamönnum var Pétur Rúnar að spila vel með 28 stig en Antonio Hester virkaði þungur og skilaði 17 stigum.

 

 

Kjarninn

Tindastóll tapaði frumkvæðinu í einvíginu sem þeir höfðu náð með sigri í Hellinum og nú er ÍR með heimavallarrétt að nýju.  Baráttan heldur áfram.

 

Myndasafn

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

Mynd: Matti var frábær í kvöld

 

 

Viðtöl:

Helgi: Nú er staðan bara 1-1

Sveinbjörn: Við komum hingað með eitt markmið