Fyrir helgina sögðum við frá því að leikmaður Grindavíkur, framherjinn Þorsteinn Finnbogason væri að leita sér að liði á höfuðborgarsvæðinu í gegnum samskiptamiðilinn Twitter. Sagði hann í auglýsingu sinni þar bæði að hann ætti nóg eftir og að hann myndi mæta til leiks í hörkuformi.

 

Þorsteinn er 28 ára gamall og 194 sentímetrar á hæð. Spilaði 24 leiki með Grindavíkurliðinu síðasta vetur, en í þeim skilaði hann 7 stigum, 3 fráköstum og stoðsendingu á um 18 mínútum spiluðum í leik. 

 

Í spjalli við Körfuna í dag sagðist Þorsteinn ekki vera búinn að finna sér lið, en viðurkennir það sé nokkuð snemmt sé að ákveða það. Segir hann þrjú lið hafa haft samband við hann, að þau hafi öll verið spennandi á sinn hátt, en að alltaf geti verið gaman að sjá hvort eitthvað fleira komi.

 

Þá segir hann það hafa átt að vera létt glens líka að fara þessa leið í að leita að liði, að prófa að auglýsa starfskrafta sína svona, en hann minnist þess ekki að hafa séð slíkt áður.

 

Ljóst er að spennandi er orðið hver lendingin í þessu máli Þorsteins verður, en Karfan mun gera sitt allra besta við að upplýsa um það um leið og niðurstaða er komin.

 

 

 

Upprunalegt tíst: