Það fer að skýrast hvaða lið mætast í undanúrslitum Euroleague þetta árið en tveimur einvígum í átta liða úrslitum er lokið. Línurnar gætu skýrst betur í kvöld þegar tveir leikir fara fram en helgina 18-20 fara úrslitin fram í Belgrad. 

 

Öskubuskuævintýri Zalgiris Kaunas heldur áfram en liðið gat slegið stórveldið Olympiakos úr leik með sigri á sínum heimavelli í gærkvöldi. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að liðið ætlaði sér að klára einvígið í magnaðri stemmningu í Kaunas. Zalgiris leiddi allan leikinn og náði að lokum að sækja sigur 101-91. 

 

Edgaras Ulanovas sem er fæddur og uppalinn í Kaunas fór fyrir sínum mönnum í leiknum. Hann endaði með 20 stig og 9 fráköst en Kevin Pangos var einnig frábær með 21 stig. Liði Kaunas var af mörgum spámönnum spáð neðstu sætum deildarinnar en er nú komið í undanúrslit. Margir leikmenn liðsins eru uppaldir í Kaunas og þar á meðal þjálfarinn Sarunas Jasikevicius sem felldi tár þegar ljóst var að sigurinn væri í höfn. Þetta er í fyrsta skiptið í 18 ár sem Kaunas kemst í undanúrslit Euroleague. 

 

Á Spáni voru núverandi evrópumeistarar Fenerbache í heimsókn og gátu unnið einvígið með sigri. Baskonia átti ekki svör við spilamennsku tyrkjanna í gær og þrátt fyrir góðan þriðja leikhluta náði liðið ekki að jafna einvígið. Fenerbache vann að lokum 83-92 sigur. 

 

Marko Guduric átti sinn besta leik í Euroleague og endaði með 22 stig. Ítalinn Nicolo Melli var einnig sterkur með 21 stig, 3 stoðsendingar og 3 fráköst. 

 

Hestu tilþrif úr báðum leikjum gærkvöldsins má finna hér að neðan: