Deildarkeppni Euroleague þetta árið lauk í vikunni og er nú ljóst hvaða lið mætast í átta liða úrslitum keppninnar. Deildin hefur verið ansi fjörleg, nokkur lið hafa komið á óvart og er ljóst að fjörið heldur áfram í úrslitakeppninni. 

 

Það var löngu ljóst að rússarnir í CSKA Moskvu væru með efsta sæti deildarinnar. Það má líkja liðinu við tvíhöfða skrímsli þar sem leikstjórnendurnir stórkostlegu Sergio Rodriquez og Nando De Colo stjórna liðinu. Þeir mæta grönnum sínum í Khimki Moskvu þar sem Alexey Shved hefur átt algjörlega ótrúlegt tímabil. 

 

Núverandi evrópumeistarar Fenerbache freista þess að verja titilinn og þurfa að komast í gegnum Baskonia fyrst. Spútnik lið tímabilsins Zalgiris Kaunas eiga erfitt verkefni fyrir höndum þegar varnarlið ársins Olympiakos mætir þeim. Þá ætlar ungstirnið Luka Doncic að sækja evróputitil fyrir Real Madrid en hann er orðaður við NBA nýliðavalið í sumar. En gríska liðið Panathinikos eru andstæðingar þess í fyrstu umferð. 

 

Úrslitakeppni Euroleague verður í beinni útsendingu á Sport TV og verður gerð góð skil. Sigra þarf þrjá leiki í átta liða úrslitum og hefjast þau 17. apríl næstkomandi. Final four helgin fer svo fram 18-20 maí næstkomandi. 

 

Átta liða úrslit Euroleague líta svona út: 

 

CSKA Moscow (1) – Khimki Moscow (8)

Fenerbache (2) – Baskonia (7)

Olympiakos (3) – Zalgiris Kaunas (6) 

Panathinikos (4) – Real Madrid (5)