Keflavík sigraði Val með 95 stigum gegn 79 í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna. Komu því í veg fyrir að vera sendar í sumarfrí, en Valur leiðir enn í einvíginu, með tvo sigra gegn einum Keflavíkur.

 

Hérna er meira um leikinn

 

Karfan spjallaði við þjálfara Keflavíkur, Sverrir Þór Sverrisson a leik loknum í TM Höllinni. Sagði hann liðið hafa spilað af miklum krafti í kvöld og að vörnin hafi verið öflug. Þeim hafi tekist að keyra í bakið á þeim eftir góð varnarstopp, en Keflavíkurliðið skoraði heil 43 stig úr hraðaupphlaupum í leik kvöldsins gegn aðeins 6 stigum frá Val.

 

Lykilleikmenn Keflavíkur virtust einnig vera að finna fjöl sína. Brittanny Dinkins setti 40 stig (58% skotnýting) og Thelma Dís Ágústsdóttir 29 (80% skotnýting). Sagði Sverrir að þó þær hafi skorað mikið í kvöld, þá hafi það verið frábær liðsvörn sem skilaði mörgum auðveldum körfum sem skóp sigurinn.

 

Næsti leikur liðanna er komandi föstudag kl. 19:15 í Valsheimilinu. Þar sem, líkt og í kvöld, Keflavík er með bakið upp við vegg. Ef Valur vinnur þá halda þær til úrslita, þar sem Haukar bíða. Um leikinn sagði Sverrir að þarna væru tvö hörkulið og að þær þyrftu að koma enn grimmari til leiks á föstudaginn ef þær ætla sér að jafna einvígið.