Undanúrslitin rúlluðu loksins af stað í Dominos-deildinni í kvöld með leik ÍR og Tindastóls í Hellinum. Besti leikmaður ÍR á enn eftir að afplána tvo leiki af þriggja leikja banni og formáli leiksins skrifar sig algerlega sjálfur; geta ÍR-ingar enn og aftur komið á óvart og varið heimavöllinn gegn vel mönnuðum Stólum? Einnig er Trausti Eiríks á annarri löppinni en verður ,,Kanadamaðurinn“ kannski bjargvætturinn?

 

 

Spádómskúlan: Í kúlunni birtast myndir úr Hertz-hellinum og er ekki annað að sjá en að trylltu partýi sé að ljúka þar. Sumir eru farnir líkamlega og aðrir andlega og ferska sveitaloftið tekur yfir. Þetta merkir mjög öruggan 63-82 sigur Tindastóls.

 

 

Þáttaskil         

Það vantaði ekkert upp á stemmninguna í pakkfullum Hellinum í kvöld. Krókurinn var í húsinu, Gettóarnir og Svali. Kanadamaðurinn kom beint í byrjunarliðið hjá ÍR en S. Arnar byrjaði hins vegar á bekknum fyrir gestina.

 

Það kom ekki á óvart að Hester reyndist ÍR-ingum erfiður og setti fyrstu 4 stig leiksins. Danero leiddi sína menn og kom ÍR í 6-5. Eftir það sigu gestirnir framúr og sóknarleikur heimamanna var afskaplega þunglamalegur svo ekki sé meira sagt. Hvert stig var nánast eins og kraftaverk og Stólarnir leiddu 13-22 eftir fyrsta.

 

ÍR-ingar hafa haldið sér inn í leikjum með frábærri vörn en það dugir ekki eitt og sér. Eftir rólegar fyrstu mínútur setti Bjöggi, Borgnesingurinn snjalli, 8 stig á skömmum tíma og kom sínum mönnum 14 stigum yfir, 19-33. Það var nánast lífsspursmál fyrir ÍR að svara og þeir veittu hálfsvar á þeim 4 mínútum sem eftir voru af fyrri hálfleik. Þeim tókst að minnka muninn í 30-38 af harðfylgi fyrir hálfleik. Matti var ískaldur í fyrri hálfleik og hafði brennt af 5 vítum í hálfleiknum og munar um minna.

 

 

Pétur opnaði seinni hálfleik með þristi og jók forystuna aftur yfir hin andlegu erfiðu 10 stig. Áfram var sóknarleikur ÍR-inga ryðgaður fastur enda gaf vörn gestanna ekki vörn heimamanna tommu eftir. Þegar leið á fjórðunginn hitnaði Arnar svo allvel og setti þrjá þrist í röð og þegar rúmar 3 voru eftir af leikhlutanum var útlit fyrir að spennudagskrá væri lokið því staðan var 40-58. Kúlan gladdist og sá fyrir sér holu í höggi. Danero hélt hins vegar áfram að draga sitt lið áfram og svaraði stuttlega fyrir sína menn fyrir leikhlutaskiptin, staðan 46-58.

 

Kannski mætti greina það sem svo að gestirnir hafi verið orðnir aðeins of öruggir með sig í lokaleikhlutanum. Vörnin var ekki alveg jafn skörp og Hákon og einfætti Borgnesingurinn nýttu sér það með þristum. Hákon hélt áfram að skora og var kominn í gírinn og Danero spilaði áfram frábærlega. Þegar 3 mínútur lifðu leiks höfðu heimamönnum tekist að minnka muninn í 70-76 og hávaðinn í húsinu langt yfir hættumörkum! Það var svo saga leiksins að Arnar Björnsson setti ævintýralegan þrist á klukkunni og jók forystuna upp í 9 stig. Þrátt fyrir óþreytandi baráttu heimamanna varð útisigur aldrei almennilega í hættu. Síðasta mínútan var ekki til upptöku eins og vill stundum verða þar sem liðin voru mikið á línunni. Eftir ansi langa og satt best að segja leiðinlega lokamínútu lauk leik með 82-89 sigri Tindastóls.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Munurinn í fráköstum er merkilega lítill, a.m.k. miðað við opinbera tölfræði. Fyrirfram mátti búast við ójöfnum leik þar. Það er skotnýtingin sem réði úrslitum í þessum leik, gróft á litið 60/30 á móti 50/20 prósenta nýtingu liðanna í tvistum og þristum sigurliðinu í vil.

 

 

Hetjurnar

Arnar Björnsson er góður í körfubolta. Undirritaður hefur þá tilfinningu að margir eigi eftir að átta sig á því hversu fáránlega góður drengurinn er orðinn – hann mun sýna það á næstu vikum. Hann skoraði 25 stig í fáum skotum og gaf 4 stoðsendingar á 29 mínútum. Hester byrjaði sterkt og lauk leik með 20 stig og 5 fráköst. Bjöggi átti einnig frábæra spretti á móti sínum gömlu samherjum.

 

Danero var bara heilagur í þessum leik! Maðurinn setti 33 stig, var með 33 stig í framlag og setti 33% þriggja stiga skota sinna niður! Fráköstin urðu 3×3 eða 9. Það má nefna að hann er númer 33. Héðan í frá mun hann ganga undir nafninu Danero Helgi Thomas hjá mér. Aðrir náðu sér ekki vel á strik og Matti sefur sennilega illa í nótt.

 

 

Kjarninn

Það er alger synd að Ryan Taylor sé ekki með. ÍR þarf svo mikið á honum að halda. Ryan ætti að skammast sín fyrir að eyðileggja fyrir liði sínu á bjánalegan hátt en hann hlýtur að mæta mjög einbeittur í þriðja leik. Fyrir hans lið er 0-2 staða á móti Stólunum aftur á móti ekki mjög fýsileg.

 

Stólarnir eru með frábært lið og virðast vera á mjög góðum stað. Það er erfitt að sjá annað en sigur þeirra í næsta leik og 0-2 forystu í einvíginu.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Myndir / Davíð Eldur

Viðtöl / Ólafur Þór og Davíð Eldur

 

Viðtöl: