Tindastóll tók 49 vítaskot í gær í tapleik í Síkinu gegn ÍR. Þar með jafnaði ÍR undanúrslitaseríuna 1-1 og í næsta leik verður Ryan Taylor í búning. Stólarnir hefðu átt að gera betur á vítalínunni en þar lágu alls 19 stig sem fóru í súginn og Stólarnir með met á tímabilinu eftir 49 víti í leiknum! Við sem heima sátum kláruðum poppið í skápnum, leiktíminn um tveir og hálfur tími.

Fyrir leikinn í gær voru það Njarðvíkingar sem höfðu tekið flest vítaskot í einum leik þetta tímabilið með 48 skot. Stólarnir settu aðeins 61% af vítum sínum niður eða 30-49 á góðgerðarlínunni:

Vítaskot Tindastóls í fyrstu tveimur leikjum seríunnar gegn ÍR:

30-49: 61% – tapleikur 97-106 fyrir ÍR (ÍR 1-1 Tindastóll)
24-33: 73% – sigurleikur 89-82 fyrir Tindastól (ÍR 0-1 Tindastóll)

Antonio Hester þarf að gyrða í buxur því hann hefur ekki fundið sig á vítalínunni undanfarið og því ekki svo galið að senda þennan jaxl bara á vítalínuna í stað þess að láta hann skora í teignum. Hester var 7-17 í gær (41%) en 66,7% í fyrsta leiknum.

Þá var ÍR heit höndin í gær með 15 þrista en þetta var í annað sinn á tímabilinu sem ÍR skorar 15 þrista í leik, í fyrra skiptið var það í desembermánuði gegn Keflavík.

Mynd/ Hjalti Árna – Hester að taka eitt af 17 vítaskotum sínum í leiknum í gær.