Tindastóll tryggði sér sæti í úrslitaviðureign Dominos deildarinnar í kvöld með harðsóttum sigri á ÍR
 

 

Leikurinn var í járnum frá fyrstu mínútu, heimamenn í Tindastól náðu að rykkja nokkrum sinnum frá og ná nokkurra stiga forystu en ÍR kom jafnharðan til baka.  Leikurinn byrjaði á sama hátt og fyrsti leikurinn í seríunni gegn Grindavík þar sem brotið var á Arnari Björnssyni í þriggja stiga skoti og hann setti öll niður.  Pétur Rúnar setti magnaðan þrist í lok leikhlutans en Sigurkarl svaraði hinumegin og ÍR leiddi með einu stigi eftir fyrsta fjórðung 26-27.  Allt of mikið skorað að mati heimamanna.  Þeir hertu vörnina í öðrum fjórðung og náðu 7 stiga forystu í hálfleik 52-45.

 

Vörnin gleymdist hinsvegar hjá heimamönnum í upphafi seinni hálfleiks og gestirnir náðu 6 fljótum og auðveldum stigum og Sigurkarl, sem var frábær í kvöld, setti þau öll.  Hester svaraði með step-back þristi en gestirnir héldu áfram að sækja að heimamönnum og náðu að minnka muninn í eitt stig áður en Tindastólsmenn náðu áttum í lok leikhlutans og settu aftur í 7 stiga forystu með frábærum flautuþrist frá Pétri Rúnari.
 

Síðasti leikhlutinn var svo sama baráttan áfram og gestirnir héldu áfram að minnka muninn og komust yfir þegar Taylor blokkaði Hester rosalega og seti svo þrist stuttu síðar.  Hester meiddist á ökkla í sömu sókn, þegar rúmar 6 mínútur voru eftir og fór illilega um heimamenn í stúkunni því Hester hafði verið að spila feykivel fram að þessu.  Chris Davenport kom inná og var gríðarlega öflugur á lokamínútunum með 6 dýrmæt fráköst og 4 stig.  Tvö þeirra komu eftir einhverja rosalegustu troðslu sem undirritaður hefur séð í Síkinu.  Gestirnir komust í 78-83 með þristi frá Danero en í næstu sókn á eftir var dæmd óíþróttamannsleg villa á Ryan Taylor sem barði Arnar Björnsson heiftarlega þegar hann var að leggja boltann í körfuna.  Ekkert gefið en Arnar setti bæði vítin og kom heimamönnum aftur inn í leikinn.  Davenport, Viðar og Pétur áttu svo næstu 6 stigin og Stólar skyndilega komnir með 3ja stiga forystu og voru að spila frábæra vörn.  Taylor minnkaði muninn úr víti en svo kom troðslan hjá Davenport og þakið ætlaði af Síkinu.  Danero Thomas svaraði með and1 og munurinn aðeins eitt stig 88-87.  Pétur Rúnar og Arnar náðu svo sóknarfrákasti í næstu sókn og Sveinbjörn þurfti að brjóta á Arnari sem var ískaldur á línunni og setti bæði ofaní.  ÍR-ingar fengu 6.8 sekúndur til að jafna og Matti komst í skot en það geigaði og Tindastóll fagnaði sigri.
 

Þáttaskil:

 Það skildi nánast ekkert milli liðanna í kvöld.  Frábær körfuboltaleikur!

 

Tölfræðin lýgur ekki:

ÍR vann frákastabáráttuna með miklum mun í kvöld en þeir töpuðu hinsvegar boltanum 15 sinnum og það munar um minna.

 

Hetjan: 

Antonio Hester var frábær í kvöld hjá heimamönnum, skoraði 26 stig, tók 8 fráköst og sendi 5 stoðsendingar.  Ryan Taylor sýndi hvað hann getur og var besti maður vallarins í kvöld með 25 stig og 18 fráköst auk 5 stoðsendinga en það dugði ekki til.

 

Kjarninn: 

Tindastóll stóðst pressuna og landaði feykilega sterkum sigri í kvöld á heimavelli, þrátt fyrir að þeirra besti maður hafi meiðst og ekki spilað lokamínúturnar.

 

Mynd: Helgi Rafn átti flotta innkomu

 

Myndasafn (Hjalti Árna)

Viðtal: Pétur Rúnar

Umfjöllun / Hjalti Árnason