Horsholm 79ers varð í dag danskur meistari eftir sigur í hreinum úrslitaleik um titilinn gegn Stevnsgade. Staðan í einvíginu fyrir daginn var 1-1 og því oddaleikur í dag.

 

Með liðinu leikur Keflvíkingurinn Sandra Lind Þrastardóttir en liðið tapaði í úrslitaeinvíginu í fyrra gegn Virum. Sandra náði ekki að komast á blað og lék nærri þrjár og hálfa mínútu í leiknum. Sandra er á sínu öðru ári hjá liðinu og hefur fengið fleiri mínútur en í dag í öllum leikjum úrslitakeppninnar. 

 

Horsholm hefur unnið níu Danska meistaratitla í sögunni en liðið var mjög sigursælt árin 2004-2010. Sandra varð einnig bikarmeistari með liðinu fyrr í vetur og er því tvöfaldur meistari.