Ljóst er nú að miðherjinn öflugi Ragnar Nathanaelsson mun ekki leika með Njarðvík á næsta tímabili í Dominos deild karla. Kemur þetta fram í frétt á heimasíðu félagsins. Ragnar samdi við Njarðvík fyrir síðasta tímabil og lék 25 leiki fyrir félagið. Í þeim skilaði hann 8 stigum, 8 fráköstum og 2 vörðum skotum á um 22 mínútum spiluðum að meðaltali í leik.

 

Karfan.is heyrði hljóðið í Ragnari eftir að viðskilnaðurinn við Njarðvík var ljós. Hann sagðist sýna þessu skilning. “Þótt maður sé sár yfir þessu og hlakkaði mikið til næsta tímabils sýnir maður þessu skilning. Svona er bransinn stundum."

 

Ragnar sem leikið hefur með Þór Þ, Hamri auk liða á Spáni ætti ekki að vera í miklum vandræðum með að finna sér nýtt lið. Þegar hann var spurður útí framhaldið var svarið: "Hvað tekur við hjá mér er enn þá smá óljóst, ekki nema ég er búinn að sækja um í HÍ." sagði Ragnar.