Það er orðið alltof langt síðan það varð ljóst hvaða lið etja kappi í úrslitaseríu Dominos-deildar karla í körfubolta. Körfuboltaunnendur voru sviknir um oddaleiki þar sem KR og Tindastóll kláruðu Hauka og ÍR 3-1. Það er ótrúlegt tillitsleysi af körfuboltaguðunum að gefa okkur ekki í það minnsta einn oddaleik í undanúrslitum! Að sama skapi þökkum við fyrir frábæra fjóra leiki og yndislega skemmtun. Biðin eftir fyrsta leik í úrslitarimmunni hefur verið alveg óþolandi löng en ágætu lesendur, henni lýkur á morgun! 

 

Tindastóll – KR, leikur 1:

 

Stólarnir eru bikarmeistarar eftir að hafa hrifsað bikarinn af KR-ingum með stórsigri þann 13. janúar á þessu ári. Þessi titill er samt eini stóri titill Stólanna frá upphafi! KR-ingar halda enn Íslandsmeistaratitlinum og hafa lagt það í vana sinn að verja hann á síðustu árum. Þetta eru auðvitað frekar þreytandi einokunartilburðir af hálfu KR-inga og þeir láta eins og árið 1787 sé ekki enn í garð gengið. KR-ingar vita vel að allir eru orðnir hundþreyttir á þessu, allir nema KR-ingar að sjálfsögðu. En svona virkar þetta, úrvalsdeild karla er ekkert bingó!

 

 

Geta Stólarnir brotið blað?

Stólarnir eru afar vel mannaðir. Þeir eru með yngra lið og virðast mjög hungraðir í árangur. Meira að segja Antonio Hester virðist mjög hungraður í sigur og ég er ekki frá því að greina megi skagfirskan hreim í enskunni hjá honum. Stólarnir hafa spilað að mestu vel í úrslitakeppninni og helst mætti nefna furðulega og margumrædda liðsstjórn Martins sem galla á liðinu. Ótrúlegt en satt þá hafa þeir heimaleikjaréttinn því þeir lentu í þriðja sæti en KR því fjórða og það hlýtur að vera plús fyrir norðanmenn. 

 

Þrátt fyrir frábæran hóp Stólanna eru meiðsli áhyggjuefni fyrir liðið. Arnar Björnsson fékk í nárann í síðasta leik og Hester sneri sig á ökkla. Eftir því sem ég best veit verða þeir með á morgun en þeir eru bestu menn liðsins, með fullri virðingu fyrir öðrum liðsmönnum Stólanna, og þurfa að vera nálægt 100% ætli þeir sér sigur í seríunni. Að lokum, þó svo að ,,eitthvað sem hefur aldrei gerst geti alltaf gerst aftur“ eins og maðurinn sagði um árið, þá er erfitt að skríða yfir þröskuldinn í fyrsta sinn. 

 

Enginn efast um gæði KR-liðsins

Vesturbæingar eru enn alveg geggjaðir! Þeir hafa líka verið í meiðslavandræðum og ekkert veit ég um ástandið á Jóni Arnóri í dag. En þeir hafa safnað vinum sínum til sín. Helgi og Walker hafa styrkt liðið og Pavel og Brilli hafa spilað í síðustu leikjum. Pollard hefur farið vaxandi og Kristó og Bjössi eru frábærir leikmenn sem lækka meðalaldurinn. KR-ingar eru því til alls líklegir og reynslan drýpur af hverju strái í liðinu. 

 

Í einlægu viðtali við Brilla fyrr í vetur viðurkenndi Brilli að vandamál KR-inga væri einfaldlega það að þeir nenntu þessu ekki alltaf alveg! Það er ekkert skrítið, velgengni er nefnilega svo spillandi að hún getur auðveldlega eytt sér sjálf. Það er því andlegt ástand KR-inga sem mun miklu skipta fyrir þá sem og líkamleg heilsa lykilmanna.

 

Ps. Spádómskúlan neitar að tjá sig, enda sækir hún innblástur sinn í andrúmsloftið í húsinu rétt fyrir leik!

 

Höfundur / Kári Viðarsson