Hafnfirðingar mættu í Frostaskjólið í kvöld staðráðnir í að klára leikinn og geta þar af leiðandi sópað KR á Ásvöllum í næsta leik, Vesturbæingar fengu þó Jón Arnór Stefánsson og Brynjar Þór Björnsson til baka úr meiðslum sem að skipti miklu máli fyrir þá enda tveir af bestu leikmönnunum í sögu félagsins. KR þurfti nauðsynlega sigur til þess að vera ekki með bakið upp við vegg.

 

Eftir jafnan leik sem Haukar leiddu þó næstum allan tímann þá tókst KR ingum á eitthvern ótrúlegann hátt að jafna leikinn í lokin, knýja fram framlengingu og sigra að lokum, 88-80 í leik sem þeir áttu í raun og veru ekkert með að sigra.

 

Kendall Pollard átti fínan leik fyrir KR með 16 stig og 8 fráköst af bekknum en hjá gestunum var Kári Jónsson atkvæðamestur með 22 stig.

 

 

 

Ótrúlegur lokakafli

 

Þegar að rétt rúmar þrjár mínútur lifðu leiks höfðu Haukar 9 stiga forystu og KR voru búnir að vera í tómum vandræðum, skotin voru ekki að detta hjá Vesturbæingum og Haukar að spila frábæra vörn. Þarna hins vegar datt flest í baklás hjá Haukum, lokakaflann sigruðu KR 12-3 og það voru í rauninni Haukarnir sem splæstu þessum sigri á þá með klaufalegum ákvörðunum. Þeir töpuðu 4 boltum á síðustu 2 mínútum leiksins.

 

Þegar að 27 sekúndur voru eftir höfðu Haukar boltann, og voru 4 stigum yfir. Haukur Óskarsson tók þá stórskrítinn þrist með mikið eftir af skotklukkunni sem klikkaði. Þarna hefðu Haukar getað haldið boltanum mikið lengur og gert þetta næstum ómögulegt fyrir KR en í staðinn brunuðu KR í sókn og Brynjar náði ekki að setja niður sniðskot, Emil Barja tók frákastið og það var brotið á honum. Hann setti einungis 1 víti niður.  3gja stiga munur og 7 sekúndur eftir af leiknum. Björn Kristjánsson setti svo niður ótrúlegann þrist af löngu færi sem small af spjaldinu og niður. Rosalegt skot og Haukar náðu ekki almennilegu skoti til að svara. Framlenging staðreynd. Þar voru KR mikið sterkari og sigldu leiknum heim.

 

 

Kjarninn

 

Haukar fóru illa að ráði sínu í kvöld. Þeir höfðu leikinn algerlega í hendi sér en sambland af töpuðum boltum, lélegum skotum og skrítnum ákvörðunum í lokin fór með þetta fyrir þá. KR skal hrósað fyrir að gefast ekki upp, þetta leit mjög illa út fyrir þá á tímabili, enda spiluðu KR ekki góðan leik í kvöld heilt yfir.

 

Haukarnir hljóta þó að naga sig hressilega í handabökin, þetta var þeirra leikur og í stað þess að vera 2-0 yfir á leiðinni heim á Ásvelli er einvígið í járnum.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki               

 

Tölfræðin lýgur örlítið í kvöld. Haukarnir höfðu betur í mörgum tölfræðiþáttum í venjulegum leiktíma en það voru þessir fjórir töpuðu boltar alveg í lokin sem fóru með þá. Að endingu var nýtingin mjög svipuð (39% fyrir bæði lið, Haukar aðeins betri í 2gja en KR í 3gja), KR tóku örlítið fleiri fráköst, 50 gegn 47, gáfu 2 fleiri stoðsendingar og töpuðu 4 færri boltum. Sjónarmunur á tölfræðinni sem er viðeigandi í svona jöfnum leik.

 

 

Hetjan

 

Tveir leikmenn KR hljóta þessa nafnbót fyrir leikinn í kvöld. Annars vegar Björn Kristjánsson sem átti frekar erfitt uppdráttar framan af leik en setti þetta risastóra skot í lokin til þess að setja leikinn í framlengingu.

 

Hins vegar er það Pavel Ermolinskij, hann átti í talsverðum erfiðleikum í venjulegum leiktíma, tapaði mikið af boltum og skotið var ekki að detta. Það var svo í framlenginu sem leikstjórnandinn hávaxni einfaldlega tók yfir leikinn, skoraði 8 stig og spilaði óaðfinnanlega í vörninni. Þessir bestu skila sínu þegar að liðið þarf á að halda og Pavel gerði það svo sannarlega.

 

 

Tölfræði leiksins

 

Viðtöl eftir leik: 

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson

Myndir Davíð Eldur