Ómar Örn Sævarsson miðherji Grindavíkur hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Þetta staðfestir hann við Körfuna. Ómar varð 36 ára gamall í janúar á þessu ári, en lék sinn fyrsta leik í meistaraflokk með ÍR þegar hann var aðeins 15 ára gamall. Því um glæsilegan 21. árs feril að ræða hjá leikmanninum, sem allt þangað til síðasta tímabils var í stóru hlutverki hjá liði sínu. Fyrst hjá uppeldisfélagi sínu ÍR, en frá árinu 2010 með liði Grindavíkur. Þá lék Ómar einnig fjóra leiki fyrir íslenska landsliðið.

 

Á feril sínum sigraði Ómar bikarkeppnina með ÍR. Bætti svo við öðrum bikarmeistaratitil og tveimur Íslandsmeistaratitlum eftir að hann kom til Grindavíkur.

 

Í samtali sem Ómar átti við Körfuna sagði hann:

 

"Ég ætlaði að hætta eftir síðasta tímabil, en það var bara alltof erfitt. Þurfti smá aðlögunartíma til að venjast tilhugsuninni. Þetta er búið að vera alltof stór partur af lífi mínu til að bara hætta bara svona beint eftir hreinan úrslitaleik við KR"

 

"Búinn að æfa með meistarflokk síðan ég var 15 ára gamall minnir mig. Þurfti eitt tímabil þar sem ég var í minna hlutverki en ég hef verið lengi held ég. Annars spilar líka inní að skrokkurinn er orðinn lúinn, ég get ekki lengur þessa hluti sem ég gat"

 

"Held að ég hafi í alvörunni hugsað "Jæja er þetta ekki farið að vera gott" þegar að Kristó tróð yfir mig í DHL Höllinni. Annars eru blendnar tilfinningar á heimiilinu, börnin brjáluð út í mig, konan stressuð yfir því að hafa mig heima öll kvöld og ég veit ekkert hvað ég á að gera"

 

Karfan vill nota tækifærið og þakka Ómari fyrir ómælda ánægju í gegnum árin, hrósa honum fyrir frábæran feril og óska honum velfarnaðar í því sem að hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.