Nýtt körfuboltahús Hauka var vígt formlega í gær á 87 ára afmæli félagsins við hátíðlega athöfn. Þetta verður fyrsta húsið á Íslandi sem er gert einungis með körfubolta í huga.

 

Við athöfnina var tilkynnt að nýji salurinn sem er á Ásvöllum í Hafnarfirði muni hljóta nafnið "Ólafssalur". Nafngiftin er til minningar um Ólaf Rafnsson fyrrum formann KKÍ og forseta ÍSÍ og FIBA Europe sem lést langt fyrir aldur fram árið 2013. Auk þess að starfa fyrir körfuknattleikshreyfinguna var Ólafur mikill Haukamaður og lék til að mynda með meistaraflokki liðsins. Það er því vel við hæfi það þessu fyrsta körfuknattleikshöll landsins sé nefnd eftir Ólafi. 

 

Á Facebook-síðu sinni segir Hannes S. Jónsson formaður KKÍ við vígslu hússins: „Það er vel við hæfi að þetta fyrsta sérhannaða körfuboltahús beri nafn Óla sem svo sannarlega helgaði líf sitt og fjölskyldu sinnar körfuboltanum.“

 

Nánar var fjallað um þetta nýja hús á dögunum á Karfan.is en spennandi verður að fylgjast með körfuboltanum í Ólafssal í framtíðinni.