Fyrrum NBA leikmaðurinn, Muggsy Bogues, mun halda fyrirlestur kl. 16:30 í dag í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi. Yfirskrift fyrirlestrarins er "You cant teach heart" og er hann um fordóma í og í kringum íþróttir. Það er Reykjavíkurborg og SÁL, sem eru samtök áhugafólks um líkamsvirðingu sem standa fyrir viðburðinum.

 

Bogues spilaði í 14 ár (1987-2001) í NBA deildinni, þar sem hann lék í heildina 889 leiki þrátt fyrir að vera aðeins 160 sentímetrar á hæð. Er hann enn í dag lang minnsti leikmaður deildarinnar frá upphafi. Sá er kemur næst honum var Earl Boykins, sem spilaði frá árinu 1999 til ársins 2012, en hann er 165 sentímetrar.

 

 

Bogues, sem kláraði nám sitt í kynjafræði eftir að feril lauk, hefur ferðast síðustu ár um heiminn til þess að segja fólki frá því hvernig það var að vera lítill í leik stærri manna við góðar undirtektir.

 

Hefst fyrirlesturinn kl. 16:30 í Gerðubergi og frítt er inn, en gert er ráð fyrir að hann standi í um 40 mínútur.

 

Mynd / Bogues líklega þekktastur fyrir ár sín í Charlotte, en þar var hann hluti af mjög efnilegu liði Hornets sem innihélt meðal annarra þá Larry Johnson og Alonzo Mourning