Matthías Orri var súr með tapið en hann lofaði að hans lið myndi mæta með fulla trú á Krókinn:

 

Frábær sigur hjá ykkur í síðasta leik en svo tap hér á heimavelli í kvöld. Líður ykkur svolítið eins og þið hafið hent sigrinum á Króknum frá ykkur?

 

Já og nei, Hellirinn hefur verið gott vígi hjá okkur í vetur og okkur finnst við ekki eiga að tapa hérna. En það hefur verið of mikið um það, við höfum t.d. tapað báðum leikjunum í þessari seríu hér heima. Við höfðum trú á okkur fyrir norðan í síðasta leik og ég skal lofa þér því að sú trú er ekkert að fara að breytast á föstudaginn.

 

Stólarnir voru að spila betur í kvöld en í síðasta leik, ekki síst varnarlega, en það breytir því ekki að það gerðuð ykkur kannski seka um of mikið af klaufamistökum?

 

Við vorum bara ekki nógu harðir af okkur. Við gerðum þessa grunnvinnu ekki nógu vel, að stíga inn í mennina og opna okkur almennilega til að fá boltann á réttum stöðum. Við létum ýta okkur út úr öllu. Svo vorum við að tapa boltanum á miðjum velli og það er ekki ásættanlegt í fjögra liða úrslitum. Bakverðirnir okkar eiga að geta höndlað pressu, við erum með þrjá bakverði og við eigum allir að ráða við þetta. Við þurfum svo að finna leiðir til að losa betur um þetta sóknarlega og við vorum ekki nógu duglegir við að hjálpa Ryan við að komast inn í leikinn.

 

Mér finnst að það megi orða það svo að Hester hafi pakkað Ryan einfaldlega saman í þessum leik!

 

Hester var vissulega frábær í kvöld, einkum sóknarlega. Við verðum að taka betur á honum, við getum ekki leyft honum að skora ítrekað úr sniðskotum. Við viljum frekar að hann taki stökkskotin. Ég myndi líka segja að Stólarnir hafi verið duglegir við að finna hann, annað en við gerðum fyrir Ryan. Þetta mun breytast, við munum breyta þessu.

 

Ein heimskuleg spurning í lokin, ef Stólarnir eiga 95% leik eða svo, eigið þið þá einhvern séns í þá?

 

Já auðvitað, við þurfum þá bara að spila 95% líka!

 

Sagði Matti og þarna er gott dæmi um svar sem er mikið betra en spurningin!

 

 

Viðtal / Kári Viðarsson