Hamar hefur ráðið nýjan þjálfara fyrir meistaraflokk karla á næsta tímabili. Máté Dalmay þjálfari Gnúpverja mun taka við liðinu í sumar. Þetta staðfesta forsvarsmenn Hamars í samtali við Karfan.is.

 

Máté Dalmay hefur þjálfað Gnúpverja síðustu ár og kom liðinu upp um tvær deildir á tveimur árum auk þess sem liðið átti skínandi tímabil í 1. deild karla á nýliðnu tímabili. Máté er 29. ára gamall sem leikið hefur með Hamri áður, síðast árið 2009 er liðið fór uppí úrvalsdeild. 

 

Hamar tapaði í úrslitaeinvígi 1. deildar karla gegn Breiðablik fyrir stuttu og rétt missti því af sæti í Dominos deildinni á næsta tímabili. Eftir einvígið misstu Hvergerðingar þjálfarann Pétur Ingvarsson til Breiðabliks og var því í þjálfaraleit. Leitinni er nú lokið og hefur Máté verið ráðinn eftir að hafa gert frábæra hluti með Gnúpverja. 

 

„Hópurinn er flottur og ég býst við að halda kjarnanum sem skilaði liðinu í annað sætið í ár, markmiðið er að sjálfsögðu að komast upp um deild “ Segir Máté í yfirlýsingu Hamars, en síðustu ár hefur hann verið aðalþjálfari Gnúpverja með frábærum árangri, en hann tók liðið upp um tvær deildir á síðustu þrem árum. 
 

 

Máté verður þá með sínum fyrrum liði í 1. deildinni að ári. Fyrsta deild karla verður mikil landsbyggðardeild á næsta tímabili en átta lið eru utan af landi.