Um helgina fór fram 27. umferð frönsku Pro A deildarinnar. Nokkur spenna er á báðum endum deildarinnar og því allir leikir mikilvægir á þessum tímapunkti. 

 

Martin Hermannsson var líkt og oft áður stigahæstur í liði Chalons/Reims en liðið tapaði gegn toppliði Monaco á útivelli. Martin var með 18 stig og fimm stoðsendingar á 32 mínútum en hann spilaði lang mest allra í liðinu. 

 

Haukur Helgi Pálsson var einnig í tapliði með Cholet sem tapaði óvænt gegn Boulazac sem situr í næstneðsta sæti deildarinnar. Haukur náði í fimm stig og tvö fráköst á 25 mínútum. Cholet hefur nú tapað sex leikjum í röð og einungis unnið einn leik af síðustu tíu. 

 

Martin og Reims sitja í 14. sæti þegar sjö umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Draumurinn um úrslitakeppnin er nokkurvegin úr sögunni fyrir liðið. Cholet og Haukar Helgi nálgast hinsvegar fallsætið óðfluga með gengi síðustu vikna. Liðið situr í 16. sæti og er tveimur sigrum frá 17. og næstneðsta sætinu.