Aga-og úrskurðarnefnd KKÍ fundaði í vikunni þar sem nokkur tilfallandi mál voru tekin fyrir. Meðal þess sem var að María Lind Sigurðardóttir leikmaður Stjörnunnar var dæmd í eins leiks bann fyrir brot á Aalyiah Whiteside leikmanni Vals í leik liðanna þann 24. mars síðastliðin.

 

Í úrskurði nefndarinnar segir: „Með vísan til ákvæðis c. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga – og úrskurðarmál skal hin kærða, María Lind Sigurðardóttir, leikmaður Stjörunar í mfl., sæta eins leiks banni vegna háttsemi sinnar í leik Stjörnunar gegn Val í Íslandsmóti kvenna, úrvaldsdeild, sem leikinn var þann 24. mars 2018."

 

Segja má að þetta atvik sé umdeilt og ekki allir á sama máli um hvort dómurinn sé réttur. Pétur Már Sigurðsson þjálfari Stjörnunnar gagnrýndi dómara leiksins harðlega eftir leikinn en viðtal við hann eftir leikinn má sjá hér.

 

Í myndbroti af atvikinu hér að neðan má sjá að brot Maríu Lindar er ansi léttvægt. Davíð Hreiðarsson dómari leiksins ákvað eftir smá umhugsunarfrest að reka Maríu af velli fyrir þetta brot sem þótti grófur leikur eða ósæmileg framkoma. Auk þess fer málið til aganefndar þar sem dómarar leiksins kæra atvikið. Þar er María Lind dæmd í eins leiks bann sem hún mun þá taka út í byrjun næsta tímabils. 

 

Dæmi nú hver fyrir sig hvort atvikið hér að neðan sé grófur leikur sem verðskuldi eins leiks bann. Ljóst er að dómnum verður ekki snúið enda málum ekki skotið til áfrýjunarnefndar nema um sé að ræða fjögurra leikja bönn að minnsta kosti.