Í kvöld mætast Haukar og Valur í fyrsta leik úrslitaeinvígis Dominos deildar kvenna. Innbyrðis viðureignir liðanna voru fjórar í deildinni og sigruðu Haukar þrjár þeirra. Síðast mættust þau í Valsheimilinu þann 13. mars síðastliðinn, þar sem að Haukar sigruðu eftir spennandi leik, 67-71.
Karfan fékk Lovísu Falsdóttur leikmann Breiðabliks sem leikið hefur við bæði þessi lið margoft í vetur til að spá fyrir um einvígið og þennan fyrsta leik.
Hvað er að fara að gerast í leik kvöldsins?
Ef að Valsstúlkur byrja þessa seríu af jafn miklum krafti og þær byrjuðu seríuna á móti Keflavík þá sé ég þær aftur stela heimavallarréttinum í kvöld. Lykilatriðið fyrir þær að ná sigrinum verður að stoppa Helenu og stíga Whitney Fraizer vel út.
Við hverju má búast í þessu einvígi?
Þetta verður hörku spennandi og skemmtilegt einvígi. Það verður áfram mikið skorað líkt og í Vals-Keflavíkur seríunni og enn harðari barátta. Við munum fylgjast með framtíð íslenskra leikstjórnenda etja kappi, í þeim Þóru og Dagbjörtu Dögg, hvet alla til að fylgjast vel með þeim. Einnig verður gaman að sjá hvort systurnar, Guðbjörg og Helena ‘’dekki’’ hvora aðra í leiknum, þær þekkja hvora aðra best og því gott ‘’match-up’’. Haukastúlkur unnu þrjá af fjórum leikjum þessara liða í deild í vetur en leikirnir voru allir jafnir. Úrslitakeppnin er þó allt annar handleggur!
Hvernig spáiru einvíginu?
Ég ætla að spá seríunni 3-2 fyrir Val. Serían byrjar á tvem útisigrum, svo komast Haukastelpur í 2-1 og Valsstúlkur vinna rest. Leikur 5 verður háspennu lífshættuleikur á Ásvöllum. Ég er svo viss um að Darri sé mjög hungraður í titil og það sést að hann hefur smitað það í stelpurnar, þess vegna hef ég tröllatrú á þeim að klára þetta.
Leikurinn hefst kl 19:15 í kvöld og fer fram á Ásvöllum. Hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 auk þess sem honum verður gerð góð skil á Karfan.is í kvöld.
Mynd / Bára Dröfn – Lovísa gegn deildarmeisturum Hauka