Þór Akureyri tilkynnti það á dögunum að það hefði ráðið Lárus Jónsson til þess að taka við meistaraflokki og drengjaflokki félagsins af Hjalta Þór Vilhjálmssyni fyrir næsta tímabil. Þór féll úr Dominos deildinni nú á þessu tímabili eftir að hafa komið upp fyrir þar síðasta tímabil og farið í úrslitakeppnina í fyrra.
Áður hefur Lárus þjálfað hjá Hamri og nú síðast Breiðablik, en hann gerði unglingaflokk Breiðabliks að bikarmeisturum fyrr í vetur.
Karfan spjallaði við hann um nýja starfið og hverjar væntingarnar eru fyrir næsta vetur.
Hvernig kom það til þú ákvaðst að fara norður?
"Þórsarar heyrðu í mér rétt fyrir páska eftir að það var ljóst að Hjalti ætlaði að flytja aftur suður. Mér finnst verkefnið spennandi og fjölskyldunni langar að prófa að búa á Akureyri"
Mikil sveifla hjá félaginu síðustu 2-3 ár, úr 1. deild beint í úrslitakeppni Dominos deildarinnar, svo beint aftur niður.
Við hverju má búast við af Þór á næsta tímabili?
"Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma liðinu aftur upp í úrvalsdeild"
Nú er gífurlega efnilegur árgangur að koma upp hjá Þór, má búast við að þeir muni bera liðið uppi í 1. deildinni?
"Ungir og efnilegir leikmenn munu hjálpa liðinu næsta vetur ásamt reynslumeiri leikmönnum sem voru kjölfestan í liðnu síðasta tímabil. Svo er aldrei að vita nema einhverjum langi að upplifa ævintýri og flytja norður. Góðir körfuboltamenn geta haft samband í 6964763"
Spenntur fyrir verkefninu?
"Já ég spenntur því það er metnaður hjá klúbbnum fyrir því að koma liðinu aftur upp í úrvalsdeild ásamt því að halda áfram að hlúa vel að ungum og efnilegum leikmönnum"