KR-ingar gátu smellt sér í úrslitaseríuna enn eina ferðina í kvöld með sigri á gestunum frá Hafnarfirði. KR-ingar búa svo vel að þeir geta bara hringt í vin í hvert skipti sem þeir finna til óöryggis. Þeir eiga endalaust af vinum um allan heim. Haukarnir þurfa aftur á móti mest á sálfræðivini að halda og ef liðið hefur ekki fengið almennilega meðferð á því sviðinu fyrir þennan leik verður ekki að sökum að spyrja…

 

Spádómskúlan: Kúlan þykist vera næm á umhverfi sitt og líkar illa við viðbrögð Hauka eftir tapið í síðasta leik. Ívar sást ekki í viðtali og Finnur Atli talaði um meinta óheppni Haukaliðsins. Þetta eru ekki traustvekjandi viðbrögð og kúlan hefur nákvæmlega enga trú á Haukaliðinu. Býsna öruggur 65-80 sigur KR-inga blasir við og seríunni lokið.

 

Þáttaskil    

Ef marka má ótrúlega næmni spádómskúlunnar gæti það skipt Hauka miklu máli að byrja í það minnsta ágætlega í leiknum. Þeir virtust vera óhræddir við að skjóta en ekkert vildi ofan í í byrjun. Sama var upp á teningnum hjá KR-ingum enda spennustigið auðvitað upp í rjáfri. Í stöðunni 8-8 settu heimamenn þrjá þrista í boði Helga og Brilla og staðan 17-14 eftir einn. 

 

Heimamenn voru aðeins beittari fyrstu mínútur annars leikhluta og tættu í sig einhvers konar svæðisvörn Hauka með góðum stökkskotum við vítalínuna og sóknarfráköstum. Maður á mann vörn Hauka stöðvaði svo blæðinguna og við tók hreint ágætur kafli gestanna. Þeir komust í 26-31 en þá tók Brilli við fyrri iðju og raðaði þristum. Heimamenn komu sér aftur yfir og leiddu 36-34 í hálfleik. Brilli var kominn með 12 stig og Paul Jones 10 í hálfleik.

 

 

Breki var ekkert lítill í sér í leiknum og síst í þriðja leikhluta. Hann átti mestan heiðurinn að því að gestirnir héldu naumu forskoti fram eftir öllum leikhlutanum. Það var kannski saga leiksins að KR-ingar enduðu leikhlutann mun betur rétt eins og í fyrri hálfleik og leiddu 55-51 fyrir lokaátökin.

 

Maður hafði það á tilfinningunni að gestirnir ættu erfitt með að þola mikið meiri mun en af öðrum ástæðum en dómsdagsspá kúlunnar sagði til um. KR-ingar voru einfaldlega að spila sína frábæru vörn og höfðu verið að fá mola frá öllum sínum vinum. Walker spilaði tæpar 11 mínútur í leiknum og  virtist í fínu standi og lagði sitt af mörkum beggja megin á vellinum. Þegar 7 mínútur voru eftir settu Brilli og Bjössi hvor sinn þristinn og 65-58 forskot þeirra og róðurinn orðinn þungur fyrir gestina. Helgi Magg spilaði afar vel í leiknum og kom sínum mönnum í 69-60 þegar 5 mínútur voru eftir. Pollard viðhélt forskotinu næstu mínútur og þegar rúmar tvær mínútur voru eftir var munurinn enn 8 stig, 75-67. Haukar reyndu hvað þeir gátu en Brilli, Pavel og Helgi sáu til þess á vítalínunni að sigri þeirra var aldrei ógnað að ráði í lokin. Frábær 85-79 sigur röndóttra og ferðalag á Krókinn í úrslitum næsta verkefni!

 

Tölfræðin lýgur ekki

KR-ingar unnu frákastabaráttuna með 9 fráköstum og skutu gríðarlega vel fyrir utan, voru með 42% nýtingu þar á móti 22% nýtingu Hauka.

 

Hetjurnar

Að þessu sinni er ekki úr vegi að nefna fyrst á nafn Finn Frey, þjálfara KR. Hann hefur þurft að stýra meiðslahrjáðu liði í allan vetur og endalaus óvissa með Jón Arnór. Liðið hefur aðeins tapað einum leik í úrslitakeppninni til þessa og leikplön Finns hafa meira og minna gengið upp. Hann/KR-ingar hafa kallað til ýmsa vini liðsins og það hefur styrkt liðið.

 

Brilli var frábær eins og alltaf þegar mikið er undir, setti 5 þrista í 9 skotum og tók 5 fráköst. 

 

 

Kjarninn

Haukar þurfa ekki að skammast sín neitt fyrir frammistöðuna í kvöld. Það óttuðust örugglega fleiri en spádómskúlan öruggan sigur KR. Haukar voru ekkert hræddir, mættu ákveðnir til leiks og allir skiluðu einhverju til liðsins. Ótrúlegt en satt var það kannski helst Kári Jóns sem náði sér ekki á strik, en til að bera í bætiflákann fyrir hann voru augu KR-inga á honum allan tímann rétt eins og Augað á Hringnum.

 

KR-ingar eru sigurvegarar. Þeir spila úrslitakeppnisvörn þegar mest á reynir og litlu kallarnir í hausnum á þeim segja að þeir muni hitta úr næsta skoti – alltaf! Brilli skilaði flestum stigum en molarnir komu víða að.

 

 Stólarnir eiga heimaleikjaréttinn sem er eins gott fyrir þá því KR-ingar eru tilbúnir þó Jón Arnór sé það ekki.

 

Athygliverðir punktar:

  • Það var frábær stemmning í pakkaðri DHL-höll. Gaman að heyra KR-inga syngja, mættu byrja fyrr á því á tímabilinu en velgengni er bara svo helvíti spillandi…
  • Undirritaður leggur fram þá kenningu hér, aðallega til gamans, að Finnur Freyr sé svo helvíti snjall og kænn að hann hefur verið að fela Pollard! Hann er miklu betri en hann hefur sýnt, enda erfitt að sýna getu sína á bekknum. Kannski er Walker leynivopn 2, bíðandi eftir kallinu í Chicago.

 

Tölfræði leiksins.

 

Myndasafn (Bára Dröfn) 

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

 

 

Kári Viðarsson