Tindastólsmenn mættu í DHL höllina í kvöld staðráðnir í að hefna fyrir tapið á föstudaginn. KR höfðu talsverða yfirburði í þeim leik og spiluðu vel á báðum endum vallarins.

Það er skemmst frá því að segja að Sauðkrækingar gjörsamlega flengdu KR-inga á öllum sviðum körfuboltans í síðari hálfleik og var lokafjórðungurinn lítið annað en formsatriði. Lokatölur 70 – 98.

Pétur Rúnar Birgisson var frábær hjá Stólunum með 27 stig og 9 stoðsendingar. Hjá KR var Kristófer Acox atkvæðamestur með 12 stig og 6 fráköst.

 

 

Kjarninn

Tindastólsmenn mættu virkilega grimmir til leiks í kvöld, köstuðu sér á alla lausa bolta og spiluðu mjög fast á KR sem létu hlutina fara í taugarnar á sér strax í byrjun. Það var greinilega dagskipun hjá Stólunum að vera ekki að hika í opnum skotum, heldur taka þau á fyrsta tempói og það skilaði sér heldur betur. Það var sérstaklega skemmtilegt að sjá hversu ákveðnir allir leikmenn Tindastóls voru í því að taka þessi opnu skot, það var sama hver var opinn, menn bara tóku skotið. Ekkert gauf.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Hin svokallað höstl-tölfræði skapar oft sigurvegara í jöfnum seríum. Stólarnir höfðu mikla yfirburði í þessum tölfræðiþáttum. Þeir tóku 16 fleiri fráköst heldur en KR og lauk frákastabaráttunni 50-34 gestunum í vil. Þá töpuðu KR 20 boltum í leiknum en Tindastóll einungis 13, og var munurinn enn meiri áður en ruslatíminn byrjaði.

Þá má einnig nefna að stærðfræðin segir okkur að 3 er meira en 2. Stólarnir skilja það og tóku 41 þriggja stiga skot gegn 20 frá KR. Þeir hittu úr 13 slíkum gegn 5 hjá KR. Erfitt að keppa við þessa stærðfræði.

 

 

Hetjan

Pétur Rúnar Birgisson var algerlega stórkostlegur í kvöld. Var grimmur að taka menn af dripplinu og ráðast á körfuna beint frá toppnum, en Stólarnir voru meira að dræva frá hlið í síðasta leik. Þessi áræðni Péturs skapaði mikið af opnum skotum í hornunum sem og villum og körfum upp við körfuna. Hann lauk leik með 27 stig, 9 stoðsendingar, 4 fráköst og 10 fiskaðar villur.

Þá verður undirritaður eiginlega að minnast á framlag Helga Rafns Viggóssonar. Hann spilaði að venju góða vörn og barðist vel, en það var sóknarframlag Helga sem að gerði gæfumuninn í kvöld. Helgi var að segja skotin sín virkilega vel og í lokin var uppskeran 18 stig (9/15) og 10 fráköst. Frábær.

 

 

Villur

Dómarar leiksins ætluðu svo sannarlega ekki að leyfa leiknum að leysast upp í vitleysu og voru duglegir á flautunni í leiknum. Sérsaklega í fyrsta leikhluta þar sem þeir dæmdu heilar 20 villur. Mest voru þeir að dæma á slátt en einnig litu nokkrar sóknarvillur dagsins ljós með tilheyrandi tilþrifum dómarana. Vonando fær leikurinn að flæða aðeins betur á miðvikudaginn á Króknum.

Heildarvillurnar voru 58 og tóku liðin ansi mörg víti. KR með 36 víti og Tindastóll 28.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

 

Umfjöllun og viðtöl Sigurður Orri Kristjánsson
Myndir Bára Dröfn