Fyrsti leikurinn í úrslitarimmu KR og Fjölnis fór fram í kvöld í DHL-Höllinni. Liðin voru bæði dálitla stund að koma sér í gírinn eftir páskafríið en spiluðu betur eftir því sem leið á leikinn. Eftir að hafa verði undir í fyrsta leikhluta sigu KR-ingar fram úr og leiddu að mestu það sem eftir lifði leiks. Þær unnu að lokum 78-63.
 

Gangur leiksins

Bæði liðin virtust dálítið taugatrekkt í leiknum, enda var í upphafi mikið um klikkuð skot og liðin voru mikið að hlaupa upp og niður völlinn án þess að eiga erindi sem erfiði í stigaskori. Erlendir leikmenn hvors liðs skoraði ekkert í fyrsta leikhlutanum og liðin voru almennt ekki að nýta færin sín nægilega vel. Fjölnir var þó aðeins beittari og leiddi eftir fyrstu 10 mínúturnar, 12-16. Það var nokkuð áhugavert að sjá að liðin tóku samanlagt aðeins 1 vítaskot í fyrsta leikhluta og KR-stelpur fengu ekki á sig eina villu í leikhlutanum. Af þeim fjórum villum sem Fjölnir fékk átti Berglind Karen Ingvarsdóttir þrjár þeirra, sem hafði augljóslega áhrif á mínúturnar hennar í leiknum.

KR herti sig aðeins í öðrum leikhlutanum og fór að sækja fastar inn í teig, enda fengu þær 10 víti í leikhlutanum gegn aðeins einu vítaskoti í þeim fyrsta. Fjölnir hitti á sama tíma mjög illa og skoruðu ekki stig fyrstu 5 mínútur annars leikhluta. KR gat því tekið 14-0 áhlaup og útlitið ekki gott fyrir gestina. Þær voru hins vegar áfram duglegar að frákasta til að munurinn yrði ekki meiri, en þær tóku 12 fráköst gegn 5 fráköstum KR í leikhlutanum. Í stöðunni 26-16 fóru þær loks aftur í gang og tóku á næstu 4 mínútum 12-1 áhlaup til að ná eins stiga forystu með harðfylgi og hraðaupphlaupum í eftirleik góðrar varnar. KR gat aftur á móti skorað seinustu fjögur stig leikhlutans svo staðan var 31-28 þegar liðin héldu inn í búningsklefana í hálfleik. Til gamans má geta að í hálfleik höfðu allar í byrjunarliði KR skorað nákvæmlega 6 stig hver og eitt stig komið frá Eyglóu Kristínu Óskarsdóttur.

Fjölnir var öflugara í upphafi seinni hálfleiks og voru á köflum að sundurspila vörn KR með góðum sendingum og keyrslum að körfunni. Vandinn var að þær gulklæddu gátu á sama tíma ekki stöðvað heimastúlkur á hinum enda vallarins. Gestirnir hættu hins vegar ekki og með góðu áhlaupi og fimm stigum í röð hjá McCalle Feller, erlendum leikmanni Fjölnis, komu þær muninum í tvö stig þegar stutt var eftir af þriðja. Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, tók þá leikhlé og þær svart- og hvítklæddu gátu aftur sett seinustu stig leikhlutans til að breikka bilið aðeins fyrir seinasta fjórðunginn. Staðan var 52-47 fyrir lokaleikhlutann. Það vakti athygli að fram til fjórða leikhlutans hafði aðeins eitt stig komið til samans af bekkjum beggja liða.

Skrekkurinn sem hafði verið í KR-ingum mest allan leikinn var kominn úr þeim í fjórða leikhlutanum því að þær fóru að spila betur og náðu að loka betur á Fjölnisstelpurnar, sem hittu mjög illa í þessum leikhluta (4/19 utan af velli, 21% skotnýting). Heimastúlkur fjarlægðust meira og meira og voru 18 stigum yfir þegar mest lét. Undir lokin skiptu bæði lið minni spámönnum inn á og leiknum lauk, eins og áður sagði, 78-63.
 

Þáttaskil

Leikurinn snerist í fjórða leikhluta þegar taugatitringurinn í heimastúlkum var farinn að mestu. Þær fóru að hitta betur og lokahnykkurinn kom þegar Perla Jóhannsdóttir setti tvo stóra þrista í röð til að gera endanlega út um leikinn. Þristarnir voru seinustu 6 stigin í 12-0 áhlaupi KR sem að slökkti alla von Fjölnis um að vinna leikinn.
 

Skotin og fráköstin

Skotnýting beggja liða í leiknum bar þess merki að taugarnar væru að leika liðin grátt. Það var hins vegar stígandi í skotnýtingu KR gegnum leikinn á meðan að Fjölnir var að hitta miklu verr undir lok leiksins. KR-ingar, sem hittu ekki úr þriggja stiga skoti allan fyrri hálfleikinn (0/12) settu 5 þrista í seinni hálfleik gegn aðeins einum slíkum hjá Fjölni seinni 20 mínúturnar og heimastúlkur luku leik með betri skotnýtingu en gestirnir. KR hittu 21,7% í þristum gegn 20% hjá Fjölni og settu 46,8% í tveggja stiga skotum gegn 37,5% hjá Fjölni. Þar að auki unnu þær svart- og hvítklæddu frákastabaráttuna þrátt fyrir að hafa verið á eftir í þeirri tölfræði næstum því allan leikinn. Fjölnir var að vinna fráköstin 34-36 fyrir lokaleikhlutann en KR tóku 18 fráköst gegn 7 seinustu 10 mínúturnar svo að fráköstin voru orðin 52 gegn 43 í lok leiks. Þar vannst leikurinn.
 

Bestar hjá liðunum

Erlendur leikmaður KR, Alexandra "Lexi" Petersen, átti góðan leik eftir brösuga byrjun en hún skoraði aðeins 6 stig í fyrri hálfleik. Lexi skoraði 23 stig, tók 13 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og endaði með 28 framlagsstig. Unnur Tara Jónsdóttir var líka mikilvæg fyrir KR, en hún skoraði 13 stig, tók 11 fráköst og sótti 7 villur, hæst allra í leiknum. Perla Jóhannsdóttir var sömuleiðis mikilvæg fyrir sitt lið, en hún skoraði 19 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Eygló Kristín skoraði ekki mikið en tók 7 fráköst (þ.a. 5 sóknarfráköst) og varði 5 skot í leiknum. Hjá Fjölni var McCalle Feller framlagshæst með 20 framlagspunkta, en hún skoraði 21 stig, tók 9 fráköst og stal 5 boltum. Erla Sif Kristinsdóttir var kræf sömuleiðis, en hún skoraði 16 stig (70% skotnýting í leiknum) og tók 7 fráköst. Berglind Karen fyllti út tölfræðiskýrsluna þrátt fyrir slaka skotnýtingu (28,6%) og skoraði 12 stig, tók 8 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 4 boltum. 
 

Kjarninn

Sigurganga KR-inga heldur ennþá áfram (28 sigrar í röð á þessu tímabili) og þær gætu mögulega farið gegnum allt tímabilið taplausar. Fjölnir hefur að meðaltali tapað fyrir KR með 16 stigum í sínum fjórum deildarleikjum við deildarmeistarana og þessi fyrsti úrslitaleikur tapaðist með 15 stigum. Þær eru næst besta lið deildarinnar og verða að hysja upp um sig ef að þær vilja eiga möguleika á að fara upp í efstu deild. Sjáum til hvort að heimavöllurinn verði þeim hliðhollur og hvort þær geti jafnað séríuna næsta laugardag í Grafarvoginum.
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)
 

Viðtöl eftir leikinn:

"Erfiður og harður leikur en sem betur fer höndluðum við þetta."

"Ætluðum að vera aggressívari í seinni hálfleik og það tókst."

"Misstum leikinn aðeins frá okkur í fjórða leikhluta."

"Hef enn mikla trú á liðinu mínu og það er nóg eftir af séríunni."

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir