Fjölnir tók á móti KR í öðrum leik liðanna í úrslitarimmu 1. deildar kvenna í kvöld í Dalhúsum, Grafarvogi. KR hafði ekki tapað leik á tímabilinu fyrir þennan leik og það breyttist ekki þrátt fyrir slappa byrjun gestanna, en þær unnu leikinn nokkuð örugglega 60-93.
 

Gangur leiksins

Leikurinn byrjaði nokkuð flatur hjá báðum liðum og liðin skoruðu samanlagt 10 stig á fyrstu fjórum mínútum leiksins (6-4 fyrir Fjölni). KR-ingar voru einfaldlega ekki að hitta bel í byrjun en þær voru fljótar að hrista af sér slenið eftir að hálfur leikhlutinn var liðinn. Á næstu 5-6 mínútum fyrsta leikhlutans tóku gestirnir áhlaup þar sem að þær skoruðu 21 stig geþurftu að sætta sig við stöðuna 11-25 eftir fyrstu 10 mínútur leiksins.

Lítið breyttist í öðrum leikhlutanum framan af en það leiðinlega atvik gerðist því miður að Gunnhildur Bára Atladóttir þurfti að yfirgefa leikinn eftir að hún lenti illa á fætinum inni í teignum. Jenný Lovísa Benediktsdóttir þurfti að fylla skarð þegar hún kom inn á fyrir slasaðan liðsfélaga sinn en leysti það vel með baráttu og dugnaði. Enn héldu KR-stelpur áfram að breikka bilið og þrátt fyrir smá neista frá Fjölni í lok fyrri hálfleiks var staðan samt sem áður 29-49 þegar hálfur leikurinn var liðinn.

Fjölnir náði að fylgja eftir neistanum í lok annar leikhlutans og létu gestina finna fyrir sér framan af í seinni hálfleik. Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, sá sig tilneyddan að taka leikhlé eftir tvær mínútur og messaði aðeins yfir liðinu sínu og minnti þær á að leikurinn væri langt frá því að vera búinn. Þær svart- og hvítklæddu brugðust við kallinu og gátu slúttað leikhlutanum þriðja með 10 stiga forystu næstu átta mínúturnar. Staðan fyrir lokaleikhlutann var því 48-73, KR í vil.

KR hélt í byrjun lokafjórðungsins áfram að spila góða vörn og uppskáru í kjölfarið nokkrar auðveldar körfur úr hraðaupphlaupum og sóknum gegn hriplekri vörn Fjölnis. Eftir fimm mínutur hafði KR skorað 14 stig gegn 4 stigum heimastúlkna og sigurinn var í raun ekki í neinni hættu eftir það. Minni spámenn KR fengu að spreyta sig seinustu fimm mínúturnar og náðu að halda muninum nokkurn veginn óbreyttum. Lokastaðan; 60-93 fyrir KR.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýting Fjölnisstúlkna var ekki hryllileg í leiknum (34,3% utan af velli) en gegnt 49,2% KR-inga var lítið sem heimaliðið gat gert. Þær töpuðu frákasta baráttunni, skotnýtingin var afleit og í ofanálag fengu Vesturbæjarpíurnar 36 vítaskot á meðan að Fjölnisstelpur tóku aðeins 13 slík. Í úrslitarimmum skipta minnstu smáatriði máli og 23 fleiri tækifæri í vítum til að breikka bilið milli liðanna er vissulega verðmætt.

 

Bestar hjá liðunum

Erlendur leikmaður KR, Alexandra "Lexi" Petersen, átti annan góðan leik og skoraði 27 stig, tók 9 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og var framlagshæst allra leikmanna í leiknum með 35 í framlag. Þorbjörg "Obba" Friðriksdóttir og Unnur Tara Jónsdóttir voru öflugar í teignum og kláruðu leikinn með 15 stig (Obba) og 9 stig (Unnur) ásamt því að taka 4 (Obba) og 10 fráköst (Unnur). Perla Jóhannsdóttir var illviðráðanleg á vængnum, skaust reglulega framhjá varnarmanni sínum og lauk leik með 13 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá Fjölni var Erla Sif Kristinsdóttir framlagshæst með 16 stig, 4 fráköst og eina stoðsendingu. Aðrar markverðar í liðinu voru vera þær Berglind "Beggó" Ingvarsdóttir með 12 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar í leiknum ásamt McCalle Feller sem skoraði 10 stig, tók 3 fráköst, gaf 5 stoðsendingar.
 

Kjarninn

Þá eru KR-ingar einum sigurleik frá því að hafa karla- og kvennalið í úrvalsdeildinni. Fjölnir átti ágætan leik en þær geta kannski lítið gert þegar KR-stelpur eru í þvíilíkum móð. Það blasir við að Fjölnisstelpur verða í baráttu upp á líf á dauða í næsta leik liðanna næsta þriðjudag, en eitt tap í viðbót hjá Grafarvogspíum mun enda tímabilið þeirra.
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)
 

Viðtöl eftir leikinn:

"Þetta eru baráttuleikir."

"Allar ákveðnar og spenntar."

"KR verðskuldaði sigurinn."

"Getum ennþá strítt þeim og ætlum að gera það."

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir