Keflavík sigraði Val með 95 stigum gegn 79 í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna. Komu því í veg fyrir að vera sendar í sumarfrí, en Valur leiðir enn í einvíginu, með tvo sigra gegn einum Keflavíkur.

 

Fyrir leik

Valur sigrað tvo fyrstu leiki einvígissins. Þó alls ekki afgerandi. Verið hin besta skemmtun þar sem eins og sagt hefur verið, sannarlega eru að mætast tvö nokkuð góð lið.

 

Meiðslin

Óvíst var fyrir leikinn hvort erlendur leikmaður Vals, Aalyah Whiteside, yrði með. Hún hafði eitthvað meiðst á hnéi og var ákvörðun um þátttöku hennar ekki tekin fyrr en rétt fyrir leik. Whiteside vægast sagt verið frábær í einvíginu í fyrstu tveimur leikjunum, skilað 35 stigum og 13 fráköstum að meðaltali. Spurning er hvort meiðslin héldu eitthvað aftur af henni í leik kvöldsins, þar sem að á 31 mínútu spilaðri skoraði hún “aðeins” 21 stig og tók 8 fráköst.

 

Gangur leiks

Heimstúlkur í Keflavík komu betur til leiks heldur en gestirnir. Voru 6 stigum yfir þegar að fyrsta leikhluta lauk, 25-19. Undir lok fyrri hálfleiksins jafnaðist leikurinn þó aðeins, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var Keflavík 5 stigum yfir, 41-36.

 

Í upphafi seinni hálfleiksins leggur Keflavík svo grunninn að sigri sínum. Sigra þriðja leikhlutann með 11 stigum og eru því 16 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 72-56. Í honum gerðu þær svo það sem þurfti til að sigla að lokum nokkuð öruggum 16 stiga sigri í höfn, 95-79.

 

 

Vendipunkturinn

Keflavík gjörsamlega eignaði sér seinni hluta þriðja leikhluta. Undir forystu Brittanny Dinkins tóku þær mikilvægt 18-2 áhlaup í lok hlutans. Áhlaup og forysta sem Valur var að lokum alls ekki í stakk búið tl að svara.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Keflavík skoraði 43 stig úr hraðaupphlaupum í kvöld á móti aðeins 6 frá Val. Mikið til kom það vegna þess að Keflavík náði að stela 16 boltum í leiknum á móti 2 hjá Val.

 

Hetjan

Brittanny Dinkins er lykillinn að velgengni Keflavíkur í þessu einvígi. Í fyrri hálfleiknum setti hún “aðeins” 8 stig, en var greinilega að spara sig fyrir seinni hálfleikinn. Í honum var á tíma eins og hún væri á eldi. Kláraði leikinn með 40 stig á 58% skotnýtingu. Við það bætti hún svo 8 fráköstum, 13 stoðsendingum og 5 stolnum boltum.

 

Stjörnuleikur Dinkins skyggir eilítið of mikið á hversu góðan leik Thelma Dís Ágústsdóttir átti, en hún átti einnig sinn besta leik í einvíginu í kvöld. Skilaði 29 stigum á 80% skotnýtingu, bætti við 6 fráköstum og 2 stoðsendingum.

 

Næsti leikur

Næsti leikur liðanna er komandi föstudag kl. 19:15 í Valsheimilinu. Þar sem, líkt og í kvöld, Keflavík er með bakið upp við vegg. Ef Valur vinnur þá halda þær til úrslita, þar sem Haukar bíða.

 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir / Tomasz Kolodziejski