Valur og Keflavík mætast í sínum öðrum undanúrslitaleik í Domino´s-deild kvenna í dag í Valshöllinni að Hlíðarenda. Valur leiðir einvígið 0-1 eftir sigur í fyrsta leik í Keflavík. Þá mætast Fjölnir og KR í Dalhúsum í úrslitaeinvígi 1. deildar kvenna þar sem KR hefur 1-0 forystu. Báðir leikirnir hefjast kl. 16.30 í dag.

Valskonur tóku 0-1 forystu úti í Keflavík í fyrsta leik með 77-88 útisigri þar sem Aalyah Whiteside bauð upp á 46 framlagsstig með 39 stig, 15 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum. Magnað framlag í úrslitakeppninni en Carmen Tyson-Thomas trónir enn á toppi deildarinnar framlagshæsta leikinn til þessa, 62 punktar í leik gegn Keflavík í októbermánuði. Keflvíkingar sem eru ríkjandi bikarmeistarar og Íslandsmeistarar þurfa nú að halda í höfuðborgina og ná heimavallarréttinum aftur til baka því sagan segir að fæstir vinni sig upp úr 0-2 holunni.

Í Dalhúsum reynir Fjölnir á ný að gera það sem engum hefur tekist í 1. deild kvenna, að leggja KR að velli. KR tók 1-0 forystu með 78-63 sigri í fyrsta leik. Vesturbæjarkonur eru því aðeins tveimur leikjum frá því að komast í úrvalsdeild á nýjan leik.

Fleiri leikir eru á dagskrá í dag og má sjá þá alla hér en Sindri fær Reyni Sandgerði í heimsókn kl. 14:00 á Höfn í 2. deild karla og tveir leikir eru í drengjaflokki.

Mynd/ Hallveig Jónsdóttir með Val í fyrsta undanúrslitaleiknum gegn Keflavík á dögunum.