Sænska yngri flokka mótið Scania Cup fer fram um páskahelgina og eru ansi mörg íslensk lið sem taka þátt þetta árið. Nokkur Íslensk lið eru skráð til leiks drengjaflokkum þetta árið en eitt lið var sent til leik í kvennaflokk. 

 

Í flokknum fæddir árið 2005 eru tvö íslensk lið skráð til leiks, frá Fjölni og Þór Þ/Hrunamönnum. Bæði lið enduðu neðst í sínum flokki og spila því nú um 13-15 sæti. Fjölnir vann sinn leik þar í gær en liðin mætast innbyrgðis í dag. 

 

Í árgangnum 2005 stúlkna var eitt lið skráð til leiks og var það Þór Þ/Hrunamenn. Þær hafa því miður ekki náð að sigra leik til þessa og leika um 11. sætið í dag. 

 

Lið Breiðabliks er eina liðið í árgangnum 2004 frá Íslandi. Liðið spilar um 9-12 sæti eftir að hafa endaði í þriðja sæti í sínum riðli. Blikar töpuðu fyrri leik sínum í gær um sætið og spila því um 11. sæti síðar í dag. 

 

Eitt íslenskt lið er í árgangnum 2003 en það er sameinað lið Þórs Þ og Hrunamanna. Liðið endaði í öðru sæti í sínum riðli og lék því í átta liða úrslitum í dag. Þar töpuðu sunnlendingar gegn Sænska liðinu SBBK og spila því um sæti 5-8. 

 

Fjögur íslensk lið eru í árgangnum 2002. KR hefur enn ekki tekist að vinna leik og spilar um 13 sætið á morgun. Þrjú lið fóru í átta liða úrslit, Fjölnir, Valur og Vestri/Skallagrímur. Svo fór að Valur mætti Vestra/Skallagrím í átta liða úrslitum var sem Valur vann með átta stigum. Þá komst Fjölnir einnig í undanúrslit með sigri. Það er því ljóst að íslenskt lið verður í úrslitum þessa flokks en Fjölnir og Valur mætast í undanúrslitum síðar í dag. Vestri/Skallagrímur spilar svo um 5-8 sæti. 

 

Stjarnan sendi lið til leiks í 2001 árgangnum. Liðið er enn ósigrað og er því komið í undanúrslit og mætir danska liðinu Virum Vipers í dag. Einn íslenskur þjálfari er einnig í þessum flokki en Hörður Unnsteinsson þjálfar norska liðið Sandvika sem rétt missti af sæti í undanúrslitum og spilar því um 5. sætið. 

 

Lið Fjölnis er það eina sem er skráð til leiks í árgangnum 1999/2000. Þeir komust alla leið í undanúrslit en tapaði liðið þar og leikur því um þriðja sætið.

 

Allir leikir mótsins eru í beinni útsendingu hér.