Úrslitakeppnin stoppar ekki sem er tær snilld og í kvöld eru tveir stórleikir. ÍR heldur í Skagafjörð og mætir Tindastól í öðrum undanúrslitaleik Domino´s-deildar karla þar sem Stólarnir leiða 0-1. Þá mætast Breiðablik og Hamar í úrslitum 1. deildar karla í Kópavogi þar sem Blikar leiða 0-1 eftir útivallarsigur í fyrsta leik. Báðir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15.

ÍR og Tindastóll buðu upp á mikla glímu í fyrsta leik þar sem Tindastóll var með yfirhöndina allan tímann en ÍR aldrei langt undan og Hellisbúarnir gerðu nokkrar heiðarlegar tilraunir til að komast nærri en Tindastóll hafði að lokum 82-89 útisigur. Í kvöld er síðasti leikurinn sem Ryan Taylor missir af með ÍR eftir leikbann og verður hann klár strax í næsta slag í Hertz-Hellinum, verður staðan þá 0-2 eða 1-1?

Hamar líkt og ÍR hafði heimavallarréttinn sín megin en Blikar stálu honum með 104-108 sigri í fyrsta leik í Frystikistunni í Hveragerði. Þar var mikið skorað en Hamar hefur rofið 100 stiga múrinn fimm leiki í röð!

Fleiri leikir eru á dagskrá í dag en núna kl. 12.30 mætast Stál-Úlfur og Álftanes í undanúrslitum 3. deildar karla en yfirlit yfir alla leiki dagsins má sjá hér.