Í kvöld mætast Haukar og Valur í fyrsta leik úrslitaeinvígis Dominos deildar kvenna. Innbyrðis viðureignir liðanna voru fjórar í deildinni og sigruðu Haukar þrjár þeirra. Síðast mættust þau í Valsheimilinu þann 13. mars síðastliðinn, þar sem að Haukar sigruðu eftir spennandi leik, 67-71. 

Karfan.is náði í Ingvar Guðjónsson, þjálfara Hauka, í dag og tók púlsinn á honum fyrir seríuna og leik dagsins:

 

 

Hvernig er stemmningin í Haukum fyrir fyrsta leikinn í kvöld?

"Stemningin í hópnum er bara góð. Allir spenntir að takast á við þetta verkefni enda eitthvað sem öll lið stefna á, að fá að berjast um stóra titilinn"

 

Getur verið að serían gegn Snæfell fyrir tveimur árum sitji enn í minni leikmanna og liðið komi brjálað til leiks?

"Nei það held ég ekki. Ég er með nokkurn veginn nýtt lið núna, margar farnar síðan þá og ungu stelpurnar sem voru rétt að fá smjörþefinn af meistaraflokki þá komnar í lykilhlutverk núna"

 

Hverju má búast við í einvíginu og hvernig lýst þér á andstæðinginn?

"Það má alveg örugglega búast við hörkuleikjum. Valsliðið er virkilega gott og mjög vel mannað lið. Það lið sem er með mestu breiddina í deildinni, með tvo leikmenn með reynslu af A-landsliðinu á bekknum og hafa verið að spila mjög vel"

 

Staðan á leikmannahóp, allir klárir?

"Leikmannahópurinn er bara eins klár og hann var seinni hluta tímabilsins og í undanúrslitunum. Dýrfinna er ennþá frá vegna höfuðáverka en aðrar eru klárar í slaginn"