ÍR-ingar jöfnuðu metin í 1-1 á Króknum í síðasta leik. Það voru að flestra mati óvænt úrslit og nú hafa ÍR-ingar unnið tvo af þremur leikjum án Ryan Taylor. Þeir ættu því að vera brattir fyrir leik kvöldsins en munum að allt sem fer upp kemur niður aftur. Stólarnir virðast ekki hafa fengið málsháttinn ,,dramb er falli næst“ í eggi um páskana en þeir hafa sjálfstraust og ofboðslega hæfileika….spennandi!

 

Spádómskúlan: Í kúlunni birtist hún sjálf þar sem hún holdgervist í auðmýktina sjálfa og hneigir sig og beygir í fullkominni lotningu fyrir ÍR-liðinu. Hún er sannfærð um að ÍR muni vinna leikinn en þó naumlega, 79-75.

 

Þáttaskil:

    

Það var ljóst í byrjun að Stólarnir ætluðu að virða andstæðing sinn í kvöld með því að spila grjótharða vörn! Hester var afar vel stemmdur í byrjun og kom sínum mönnum í 6-13. Ryan jafnaði hins vegar metin með troðslu í 16-16 og allt brjálað í Hellinum! Matti átti lokaorðin í fjórðungnum og kom sínum mönnum í forystu í fyrsta skipti úr vítum, staðan 24-23.

 

Eftir alllangan kafla mistaka á báða bóga náðu gestirnir smá tökum á leiknum. Axel kom sínum mönnum í 26-36 forystu þegar 4 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en aftur átti Matti lokaorðið og minnkaði muninn í 35-41 fyrir hlé. Hester var með 16 stig í hálfleik og Matti 13 fyrir ÍR.

 

Þriðji leikhluti hófst á svipaðan hátt og sá á undan, eintómir naglar inn á vellinum og EKKERT gefið eftir. Þvílík skemmtun og ég fullyrði að þessar baráttumínútur voru þrátt fyrir stigaleysi skemmtilegri en heilt tímabil í enska boltanum! Heimamenn reyndust sterkari í baráttunni þar sem Axel gekk aðeins of langt og fékk óíþróttamannslega villu. ÍR-ingar nýttu sér það og komust yfir 49-46 eftir þrist frá Danero. Hester og Arnar sáu til þess að gestirnir héldu þó naumu forskoti fyrir lokaátökin, 53-55.

 

Það virtist vera komin smá þreyta í ÍR-inga í fjórða enda erfitt að elta. Bjöggi, Borgnesingurinn snjalli, hóf áhlaup með stolnum og tröllatroði og kom Stólunum í 53-61. Arnar bætti við rýtingsþristi og svo Pétur í kjölfarið. Arnar setti svo nokkru seinna enn einn þristinn og kláraði svo leikinn í næstu sókn með glæsilegum djúpum tveimur. Þá voru 4 mínútur eftir, staðan 59-75 og blæðingin óstöðvandi. Heimamenn héldu áfram að berjast en leik lauk með nokkuð öruggum 69-84 sigri Stólanna.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Skotnýting ÍR í tveggja stiga var 35% en 45% hjá Stólunum. Gestirnir unnu einnig frákastabaráttuna 40-52.

 

Hetjurnar

Arnar Björnsson er góður í körfubolta. Já, og Hester er allt í lagi líka!  Arnar setti 29 stig í fáum skotum, gaf 5 stoðsendingar og tók 4 fráköst. Hester setti 31 stig og tók 14 fráköst. Þvílíkir menn!

 

Kjarninn

 

Ryan Taylor gat bara ekkert í þessum leik! Matti benti á í viðtali eftir leik að liðið þarf að opna betur á möguleika fyrir hann og kannski er það hárrétt. En það er hægt að orða hlutina líka þannig að Hester hafi pakkað Ryan gersamlega saman í leiknum! Ryan virtist hreinlega vera logandi hræddur við þennan magnaða stóðhest að norðan. En í ljósi atburða síðustu daga verða ÍR-ingar ekki afskrifaðir hér – næsti leikur á Króknum verður geggjaður!

 

Athygliverðir punktar:

 

  • Hellirinn var pakkaður eins og við mátti búast og áhorfendur mættir löngu fyrir leik. Allt til fyrirmyndar.
  • Valkyrjurnar skemmtu áhorfendum í hálfleik af mikilli list. Vel gert.
  • Undirritaður fékk óskemmtilega gjöf undir rúðuþurrkuna á meðan á leik stóð. Yfirvöld ættu að bera meiri virðingu fyrir leiknum fagra en svo. Brjálaður. Karfan.is óskar eftir fjárhagslegum bakhjarli til að standa straum af kostnaði sem af þessu hlýst.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Frikki D sem fyrirsögn vinni ÍR