Framherji KR, Helgi Már Magnússon, er farinn aftur til Bandaríkjanna og verður því ekki meira með liðinu í úrslitakeppninni. Samkvæmt Böðvari Guðjónssyni formanni meistaraflokksráðs karla er það af vinnuástæðum sem hann þurfti frá að hverfa, en tilkynningu KR má lesa hér fyrir neðan.

 

Helgi kom inn í lið KR fyrir undanúrslitaeinvígi liðsins gegn Haukum og skilaði fínu framlagi. Skoraði 7 stig, tók 3 fráköst og gaf 1 stoðsendingu að meðaltali á 16 mínútum spiluðum í þeim 6 leikjum sem hann tók þátt í í úrslitakeppninni.

 

KR leikur þriðja leik úrslitaeinvígis gegn Tindastól annað kvöld kl. 19:15 á Sauðárkróki, en fyrir leikinn er staðan jöfn, 1-1.

 

 

 

KR:

"Helgi Már Magnússon hélt af landi brott í gærkvöldi eftir 3 vikna veru á Íslandi þar sem hann tók þátt í að koma KR í lokaúrslit fimmta áríð í röð. Ástæðan er sú að vinnan kallaði og var vitað að þessi staða gæti komið upp. Körfuknattleiksdeild KR er ótrúlega þakklát vinnuveitendum Helga fyrir að hafa tekið vel í að hann tæki þátt í að koma liðinu í lokaúrslit sem var svo staðreyndin.

 

KR-ingar eru Helga ótrúlega þakklátir fyrir að svara kallinu og koma til landsins. Hans nærvera gaf liðinu mikið innan vallar sem utan og ljóst að leikmenn, þjálfarar og stuðningsfólk taka hans nærveru og keppnisskap í leikinn á Króknum á miðvikudagskvöldið þar sem ekkert annað en sigur kemur til greina.

 

Nú stíga aðrir upp fyrir Helga og heiðra hann með fimmta titlinum í röð.

ÁFRAM KR!"