Fyrsti leikurinn í úrslitarimmu Hauka og Vals í úrvalsdeild kvenna fór fram í kvöld á Ásvöllum. Valur hafði aldrei áður unnið Íslandsmeistaratitilinn en Haukar aðeins vanari (3 Íslandsmeistaratitlar). Haukar leiddu allan leikinn og þrátt fyrir að geta ekki hrist Val almennilega af sér framan af tryggðu þær sér að lokum góðan 85-68 sigur.
 

Gangur leiksins

Haukar opnuðu leikinn betur með því að komast í 11-4 áður en fjórar mínútur voru liðnar af leiknum. Sóknarleikurinn þeirra virtist flæða betur og þær voru á sama tíma að takmarka Val í flestum sóknaraðgerðum sínum. Valsstúlkur gátu þó aðeins hert sig og eftir leikhlé á 6. mínútu gátu þær skorað meira en Haukar á lokakafla fyrsta leikhluta, sem lauk 18-16 fyrir heimastúlkum.

Slöpp skotnýting Vals hélt áfram í öðrum leikhlutanum og þær voru oft að taka fljót skot í hraðaupphlaupum sem rötuðu ekki rétta leið. Þær gátu líka ekki sett þriggja stiga skot fyrr en að nokkrar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Haukar voru á hinn bóginn ekki í neinum vandræðum með að setja skotin sín og Valsstúlkur gátu aðeins haldið sér inni í leiknum framan af með sóknarfráköstum, en þær tóku 12 slík fráköst gegn aðeins fjórum sóknarfráköstum Hauka í fyrri hálfleik. Staðan var 37-29 í hálfleik. Til gamans má geta að hvorugt liðið klikkaði á vítaskoti á fyrstu 20 mínútunum, en liðin fengu reyndar aðeins fjögur víti hvort á þeim tíma.

Það virtist ljóst að Valur ætlaði að reyna bæta sig í seinni hluta leiksins, en þær mættu með miklu offorsi og gekk vel framan af að skora þó að þær gátu ekki minnkað muninn í stigum, enda héldu Haukar áfram að skora sömuleiðis. Valsstúlkur prufuðu að skiptast á varnarhlutverkum í seinni hálfleik til að hrista aðeins upp í sókn Hauka með því að skipta Aaliyuh Whiteside, erlendum leikmanni Vals, yfir á Rósu Björk Pétursdóttur, Bergþóru Tómasdóttur yfir á Helenu Sverrisdóttur og Elínu Sóleyju  Hrafnkelsdóttur á Whtney Frazier, erlendan leikmann Hauka. Það gekk ekki betur en svo að Haukar gátu tvöfaldað forskotið á fyrstu 5 mínútum þriðja leikhluta og Valsstúlkur voru að taka slæmar ákvarðanir báðum megin vallarins. Öðru hvoru virtust koma glætur af góðu spili hjá Val, en þær voru þá fljótar að gera mistök í næstu sókn sem að Haukar voru fljótir að refsa með körfu. Staðan eftir þriðja leikhluta var 63-49 og Valur gat ennþá stolið heimaleikjaréttinum með góðri endurkomu í lokafjórðungnum.

Afleit skotsýning Vals hélt því miður áfram í fjórða leikhluta og þær virtust aldrei geta gert leikinn spennandi, enda töpuðu þær öllum leikhlutunum í leiknum. Hlíðarendastelpurnar gátu ekki fundið körfuna nægilega vel í leiknum og þurftu að lokum að sætta sig við svekkjandi 17 stiga tap, 85-68.
 

Lýsandi sókn leiksins

Í fjórða leikhlutanum kom upp sókn hjá Valsstúlkum sem var lýsandi fyrir allan sóknarleikinn þeirra. Þær fengu fimm skot í sömu sókn og tóku 5 sóknarfráköst, en gátu ekki skilað boltanum ofan í. Guðbjörg Sverrisdóttir tók 4 þessara skota og tók 3 sóknarfrákastanna en gat bara ekki hitt. Þessi sókn kristallaði leikinn hjá Val sem átti afleitan skotleik en tók þó nóg af sóknarfráköstum.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Eins og áður sagði voru Valsstúlkur með afleita skotnýtingu í leiknum, en þær hittu aðeins úr 26 skotum af 84 utan af velli (31,5%). Á sama tíma settu Haukar 33 skot af 68 utan af velli (48,5%) og gáfu 28 stoðsendingar gegn aðeins 17 slíkum hjá Val. Það eina sem gerði að verkum að leikurinn tapaðist "aðeins" með 17 stigum var hve duglegar þær hjá Val voru að sækja sóknarfráköstin, en þær tóku 27 slík, rúmlega tvöfalt fleiri en hjá Haukum (13). 
 

Bestar hjá liðunum

Haukastelpur spiluðu flestar vel í kvöld en helst ber þar að nefna Helenu Sverrisdóttur, Whitney Frazier og Sigrúnu Björgu Ólafsdóttur. Helena skilaði enn annarri þrefaldri tvennu en hún skoraði 18 stig, tók 12 fráköst og gaf 12 stoðsendingar (ásamt því að stela 5 boltum). Whitney skoraði 26 stig, tók 10 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Sigrún Björg átti góðan leik (10 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar og 1 stolinn bolti), en hún og Helena spiluðu mjög vel saman á köflum. Þær tvær sameinuðust um að eiga þátt í 51 stigum í leiknum (skoruðu sjálfar eða sendu stoðsendinguna sem skilaði stigi) og þær voru duglegar að spila saman í seinni hálfleik, en Helena átti 4 stoðsendingar á Sigrúnu og Sigrún átti m.a. glæsilega stoðsendingu á Helenu þar sem hún fékk villu og vítaskot að auki. Hjá Val var Aaliyah Whiteside með tvöfalda tvennu, en hún skoraði 25 stig og tók 14 fráköst. Guðbjörg Sverrisdóttir náðu sömuleiðis tvöfaldri tvennu (15 stig og 10 fráköst) en skotnýting hennar var því miður mjög slök í leiknum (5/25 í skotum utan af velli). Dagbjört Samúelsdóttir átti ágætan leik fyrir Val, en hún hitti best sinna liðsmanna utan af velli (41,7%, þ.a. 33,3% í þriggja stiga skotum) og skoraði 12 stig.
 

Kjarninn

Haukar mættu vel stemmdar í leik 1 og tóku hann nokkuð örugglega með 17 stigum. Valsstúlkur virtust eitthvað vanstilltar í kvöld en voru þó aldrei verri en svo að Haukar gátu ekki slakað á fyrr en undir lokin í fjórða leikhluta. Heimaleikur Vals í leik 2 verður mjög mikilvægur og vonandi verður stuðningur heimamanna í stúkunni góður og spennustigið rétt hjá liðinu svo að þær geti sýnt sitt rétta andlit. Það voru þær sem að unnu Íslandsmeistara seinasta tímabils í undanúrslitunum og ekkert annað en besta frammistaða þeirra mun duga gegn þrælöflugum Haukastelpunum. Það er stutt í næsta leik, en hann verður kl.16:00 á laugardaginn í Valshöllinni að Hlíðarenda. 
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)
 

Viðtöl eftir leikinn:

"Algjörlega galið hvað þær taka mörg sóknarfráköst."

"Ætluðum að gefa allt sem við gátum."

"Höfðum augljóslega engin svör í dag."

"Ekkert hefur breyst fyrir okkur."

"Hef ekki áhyggjur, svona gerist ekki aftur."

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir