Fyrsti leikurinn í einvígi Hauka og KR fer fram í kvöld þegar liðin mætast á Ásvöllum kl 19:15. Haukar sátu uppi sem deildarmeistarar eftir deildarkeppnina en KR endaði í fjórða sæti. Því eru Haukar með heimaleikjaréttinn í seríunni. 

 

Liðin mættust tvisvar á tímabilinu innbyrgðis. Haukar sátu uppi sem sigurvegarar í þeim báðum. Fyrri leikinn unnu Haukar sannfærandi í DHL-höllinni en seinni var nokkuð spennandi en Haukar unnu að lokum. 

 

Þessi sömu lið spiluðu til úrslita í Dominos deild karla árið 2016. KR endaði uppi sem Íslandsmeistari eftir að hafa unnið þrjá leiki en Haukar einn. Þá lyftu KR-ingar bikarnum á Ásvöllum og því ljóst að Hafnfirðingar vilja hefna fyrir það í kvöld.

 

Í þeirri seríu meiddist Kári Jónsson og lék hann ekki síðustu leikina. Hann er núna klár og engar fregnir fengist aðrar en að leikmannahópur Hauka sé heill fyrir fyrsta leik. Það eru fleiri spurningamerki í liði KR, Jón Arnór Stefánsson fór útaf meiddur í síðasta leiknum í einvíginu gegn Njarðvík en samkvæmt heimildum KR mun hann vera klár í kvöld. Auðvitað hefur Helgi Már Magnússon bæst í leikmannahóp KR að nýju en þessi fyrrum landsliðsmaður styrkir liðið án efa. 

 

Leikurinn hefst kl 19:15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. 

 

Í Hveragerði er svo stórslagur þegar Breiðablik er í heimsókn hjá Hamri. Tilefnið er fyrsti leikur liðanna í einvíginu um laust sæti í Dominos deild karla að ári. Liðin mættust þrisvar í deildinni og unnu Hvergerðingar tvö leiki á sínum heimavelli en Blikar einn leik á sínum heimavelli.

 

Hamar endaði deildarkeppnina í öðru sæti en Breiðablik í því þriðja. Hamar er annað árið í röð í þessu úrslitaeinvígi en í fyrra tapaði liðið fyrir Val í oddaleik. Breiðablik hefur lagt mikið í liðið á tímabilinu og markmiðið verið frá upphafi að komast upp um deild. Það er því von á fróðlegu einvígi sem hefst í kvöld í Frystikistunni. Leikurinn hefst kl 19:15 og verður í beinni útsendingu á Hamar Tíví.