Fyrsti leikurinn í undanúrslitarimmu Hauka og Skallagríms í úrvalsdeild kvenna fór fram í kvöld á Ásvöllum. Liðin voru bæði dálitla stund að koma sér í gírinn eftir páskafríið en spiluðu betur eftir því sem leið a leikinn. Haukar leiddu allan leikinn og þrátt fyrir að geta ekki hrist Skallagrím af sér almennilega tryggðu þær sér að lokum góðan 88-74 sigur.
 

Gangur leiksins

Vörn Hauka var mjög góð í fyrsta leikhlutanum, enda voru þær Sigrún Björg Ólafsdóttir og Fanney Ragnarsdóttir settar í það að sjá til þess að Carmen Tyson-Thomas sæi varla boltann fram af. Bæði liðin voru að hitta illa fyrstu mínúturnar og þó að Haukar næðu að takmarka stigaskor Skallagrímskvenna í 2 stig fyrstu fimm mínúturnar voru þær ekki að skora nema 9 stig á sama tíma. Þær hvít- og rauðklæddu voru þó að hitta vel úr þristum og leikhlutanum lauk 20-12 fyrir heimastúlkum.

Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, var mögulega heldur fljótur að byrja rúlla á varamannabekknum hjá sér því að í öðrum leikhlutanum fór Skallagrímur að saxa á forskot Hauka. Borgnesingar náðu með harðfylgi að koma muninum í aðeins 3 stig þegar Helenu Sverrisdóttur var skipt aftur inn á. Sókn Hauka var aðeins stöðugari eftir það en þær voru að klikka úr mikið af opnum færum í öllum fyrri hálfleiknum, enda hittu þær aðeins 35% utan af velli. Staðan í hálfleik var 35-29 fyrir Haukum, sem virtust vera að spila miklu betur en Skallagrímur þrátt fyrir aðeins 6 stig mun.

Haukar breikkuðu bilið í byrjun seinni hálfleiks en Skallagrímur hélt áfram að spila fast og þær gátu haldið í við heimastúlkur í fyrstu. Þristarnir hjá Haukum héldu samt áfram að detta vel og þó að sóknarfráköstin væru að detta hjá Skallagrím þá var það ekki nóg til að stemma stigu við skori Hauka. Minni spámenn Haukastelpna fóru loks að setja skotin sín betur og þær gátu því tvöfaldað forskotið úr 6 stigum í 12 stig fyrir lokaleikhlutann; 61-49.

Haukar voru áfram góðar að láta boltann ganga í fjórða leikhlutanum og þó að Skallagrímur næði aðeins að saxa á forskotið fyrstu 2-3 mínúturnar þá gátu þær ekki sett í hærri gír. Þóra Kristín, sem hafði átt ágætan leik fram að fjórða, steig upp og setti nokkra vel valda þrista og gaf nokkrar stoðsendingar til að halda aftur af áhlaupum gestanna. Að lokum neyddust Skallagrímskonur til að byrja brjóta til að stöðva leikklukkuna og Haukar gátu þá bætt á forystuna þannig að lokastaðan varð, eins og áður sagði, 88-74 fyrir Haukum.
 

Þáttaskil

Haukar virtust ekki almennilega geta hrist Skallagrím af sér allan leikinn og í raun vantaði Skallagrím bara eitt áhlaup í viðbót til að gera leik úr þessu í lokafjórðungnum. Það áhlaup kom hins vegar ekki og Haukar gátu því siglt sigrinum í höfn undir lok leiks með nokkrum góðum vítum og góðum flautuþrist frá Whitney Frazier.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Skallagrímur átti erfitt með að stöðva Haukastelpur þegar þær keyrðu inn að körfunni sem sást í hve mörg vítaskot heimastúlkur fengu. Haukar voru fyrir þennan leik með langfæst vítaskot reynd að meðaltali í leik (13.1 vítaskot reynd að meðaltali í 28 leikjum) en í kvöld tóku þær 23 vítaskot og nýtt 20 þeirra (87%). Það skemmdi heldur ekki fyrir að þær hafnfirsku nýttu 48% af þristunum sínum (12/25) gegn aðeins 23% hjá Borgnesingum (5/21).
 

Bestar hjá liðunum

Allt lið Hauka steig upp í kvöld, hvort sem að það var vörn Sigrúnar Bjargar og Fanneyjar á Carmen, sókn Helenu og Whitney, skotnýting Þóru Kristínar eða framlag Rósu Bjarkar. Whitney var með 27 stig, 11 fráköst, 7 stoðsendingar og 32 í framlag á meðan að Helena var með 24 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar (30 framlagspunktar á heildina). Þóra Kristín var 5 af 7 í þriggja stiga skotum (71%), sem verður að teljast nokkuð gott. Hjá Skallagrími drógu þær Carmen og Sigrún Sjöfn vagninn, en Carmen lauk leik með 34 stig, 11 fráköst (þ.a. 7 sóknarfráköst) og 39 í framlag á meðan að Sigrún Sjöfn skoraði 17 stig, tók 11 fráköst, gaf 8 stoðsendingar og var með 28 framlagsstig.
 

Kjarninn

Haukar mættu vel stemmdar í leik 1 og tóku hann sæmilega örugglega með 14 stigum. Skallagrímskonur voru þó aldrei langt undan og með nokkrum færri mistökum og betra framlagi frá minni spámönnum liðsins. Þær fá eflaust góðan stuðning frá Fjósamönnum í Borgarnesi næsta föstudagskvöld þegar liðin mætast í leik 2 í þessari rimmu. 
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)
 

Viðtöl eftir leikinn:

"Fengum stórar körfur þegar á þurfti að halda."

"Kannski of mikill spenningur í okkur."

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir