Úrslitakeppnin í Domino´s-deild kvenna heldur áfram í kvöld og þá geta hlutirnir heldur betur farið að skýrast þar sem báðar seríurnar standa 2-0 og við gætum séð sjálfa úrslitaseríuna handan við hornið! Í 1. deild kvenna getur KR farið upp í úrvalsdeild á nýjan leik með sigri svo það verður í mörg horn að líta og hefjast allir leikirnir kl. 19:15. Í boði eru fleiri leikir eftir niðurstöðu kvöldsins eða við gætum verið að horfa upp á fjöldasumarfrí.
Haukar-Skallagrímur (2-0)
Haukar leiða einvígið 2-0 og geta klárað dæmið í kvöld með sigri. Haukar unnu fyrsta leik 88-74 í Schenkerhöllinni og annan leikinn 64-75 uppi í Borgarnesi. Vinni Haukar í kvöld er liðið komið í úrslit. Vinni Skallagrímur er fjórði leikur seríunnar í Borgarnesi þann 13. apríl.
Keflavík-Valur (0-2)
Valskonur leiða einvígið 2-0 og sigur í kvöld færir þeim sæti í úrslitum deildarinnar en Keflvíkingar eiga titil að verja sem ríkjandi Íslandsmeistarar. Valur vann fyrsta leikinn úti í Keflavík 77-88 og annan leikinn 87-80 í Valshöllinni. Vinni Valur í kvöld eru þær komnar í úrslit en vinni Keflavík fer fjórði leikurinn fram í Valshöllinni þann 13. apríl.
1. deild kvenna: KR-Fjölnir (2-0)
KR þarf aðeins einn sigur til viðbótar til að endurheimta sæti sitt í Domino´s-deild kvenna. Enn hefur liði ekki tekist að leggja KR að velli í 1. deild kvenna og nú er síðasti séns hjá Fjölni! KR vann fyrsta leikinn 78-63 og hafði svo mikla yfirburði í öðrum leiknum með 60-93 sigri í Grafarvogi. Ef KR vinnur í kvöld bíður þeirra úrvalsdeild á næstu leiktíð en ef Fjölnir verður í kvöld fyrsta liðið til að leggja KR þá fer fjórði leikurinn fram í Grafarvogi þann 13. apríl næstkomandi.
Mynd/ Bára Dröfn – Fanney Ragnarsdóttir og Haukakonur geta komist í úrslit með sigri á Skallagrím í kvöld.