Í kvöld mætast Hamar og Breiðablik í 3. leik úrslitaeinvígi liðanna í 1. deild karla. Blikar leiða einvígið 2-0 og geta klárað dæmið í kvöld með sigri. Breiðablik vann fyrsta leikinn 108-104 eftir framlengdan leik í Frystikistunni og annan leikinn 87-84 í Smáranum. Vinni Blikar í kvöld er liðið búið að tryggja sæti í Dominos deild karla að ári . Vinni Hamar er fjórði leikur seríunnar í Smáranum þann 13. apríl.

 

Karfan fékk Finn Jónsson þjálfara Skallagríms sem vann 1. deildina til að spá fyrir um þennan þriðja leik liðanna. 

 

"Það verður hörkuleikur i kvöld i pakkaðri Frystikistu, ég reikna með að spennustigið verði hátt hjá báðum liðum. Blikar sjá úrvalsdeildarsætið i hyllingum en Hamarsmenn vilja ekki fara í sumarfrí strax þar sem hitastig er varla komið yfir 4 gráður." sagði Finnur og bætti við:

 

"Þessir fyrstu tveir leikir hafa verið stórskemmtilegir og mikil spenna i loftinu. Blikar hafa þó gert mjög vel að klára þessa fyrstu leiki en þetta er alls ekki búið, það veit ég eftir að hafa tekið þátt i svipuðu dæmi i þessari deild fyrir tveimur árum. Þetta eru tvö hörku lið, ég hef fulla trú á að Hamarsmenn geti snúið þessu við og klárað dæmið i kvöld. Þannig haldið sér á lífi. Mín spá er að Hamar vinni leikinn i kvöld i framlengingu 99-95."

 

Leikurinn hefst kl 19:15 í Frystikistunni í Hveragerði. Hann verður í beinni útsendingu á Hamar Tíví en Karfan.is verður á staðnum og gerir leiknum góð skil.