Meistaraflokkur Skallagríms er í óðaönn að undirbúa liðið fyrir næsta tímabil í Dominos deild karla. Liðið sem vann 1. deild karla nokkuð örugglega á nýloknu tímabili hefur nú endurnýjað samning sinn við þjálfara liðsins. Frá þessu er greint á heimasíðu Skallagríms í kvöld. 

 

Finnur Jónsson tók við liði Skallagríms í ársbyrjun 2014 og hefur stjórnað liðinu síðan þá. Síðast í efstu deild á síðasta tímabili þar sem liðið féll með 14 stig sem er það mesta sem lið hefur gert. Þar á undan þjálfaði Finnur meistarflokk KR í Dominos deild kvenna auk yngri landsliða Íslands. 

 

Í sumar mun Finnur stjórna U20 landsliði kvenna sem fer á Evrópumót og Norðurlandamót. Aðstoðarþjálfari Finns með U20 liðið er Hörður Unnsteinsson. Hann skrifaði undir samning um að taka einnig við sem aðstoðarþjálfari Skallagríms fyrir komandi leiktíð. 

 

Hörður hefur þjálfað meistaraflokk KR í Dominos deild kvenna meðal annars og var aðstoðarþjálfari Finns þar einnig. Síðustu misseri hefur Hörður þjálfað hjá Sandvika í Noregi við góðan orðstýr. Hann er uppalinn í Borgarnesi og því má segja að hann sé að snúa aftur heim.