LA Lakers afhjúpuðu á föstudag styttu af Elgin Baylor á styttu-torgi sínu framan við heimavöll sinn Staples Center. Athöfnin fór fram fyrir viðureign Lakers og Minnesota í NBA deildinni.

Baylor er þar með sá sjötti sem Lakers sýnir þennan heiður en áður höfðu Magic Johnson, Jabbar, Jerry West, Shaq og leikþulurinn Chick Hearn fengið styttu á Staples-torginu sér til heiðurs.

Við athöfnina sagði Magic Johnson: „Áður en Dr. J og gaur að nafni Michael Jordan komu til sögunnar þá var Elgin Baylor.“

Baylor var valinn með fyrsta valrétti til Lakers árið 1958 en hann lék 14 tímabil fyrir klúbbinn, tvö í Minneapolis Lakers og 12 í Los Angeles Lakers. Meðaltölin hans á ferlinum voru 27,4 stig, 13,5 fráköst og 4,3 stoðsendingar í 846 leikjum.

Baylor var vígður inn í frægðarhöll körfuboltans árið 1977 og árið 1983 tóku Lakers treyju hans úr umferð (nr. 22) en hann lék 11 stjörnuleiki, nýliði ársins 1958-59 og tíu sinnum var hann hann í „All-NBA first-tem selection.“

Elgin Baylor var fyrsti NBA leikmaðurinn til að skora 70 stig í leik þegar hann sallaði 71 yfir New York Knicks árið 1960. Baylor er 83 ára gamall í dag.
 

Tilþrif frá ferli Baylor:


Mynd/ Elgin Baylor við athöfnina þegar stytta hans var afhjúpuð framan við Staples Center í Los Angeles.