Eftir stutta stund hefst oddaleikur Hauka og Vals í Dominos deild kvenna þar sem Íslandsmeistaratitlinn er í húfi. Staðan í einvíginu er 2-2 þar sem liðin hafa unnið sína heimaleiki til þessa. 

 

Það eru stórar fréttir í herbúðum Hauka fyrir leik þar sem Dýrfinna Arnardóttir er á leikskýrslu Hauka og hitar upp með liðinu. Dýrfinna hefur ekki leikið með Haukum frá höfuðhöggi sem hún varð fyrir í leik gegn Keflavík þann 21. febrúar síðastliðin. Þegar Karfan.is ræddi við hana fyrr í úrslitakeppninni sagðist hún ekki bjartsýn á að leika aftur á tímabilinu. 

 

 

Dýrfinna er með 10,2 stig og 2,5 fráköst að meðaltali í leik í 17 leikjum. Hún hefur einnig hlotið mikla athygli fyrir frábæran varnarleik sinn fyrir Hauka sem urðu deildarmeistarar á tímabilinu. Það er því gríðarlega stórt fyrir Hauka ef hún getur verið með og beitt sér að fullu.