Stjarnan hélt blaðamannafund í Mathúsi Garðarbæjar nú síðdegis þar sem tilkynnt var um undirritun leikmanna fyrir næsta tímabil. Stærsta fregnin er sú að Dagur Kár Jónsson hefur samið við liðið um að leika með því á komandi leiktíð.

 

Dagur Kár sem er uppalin í Stjörnunni er því á heimleið eftir þriggja ára fjarveru. Fyrst lék hann með St. Francis háskólanum í Bandaríkjunum en síðustu tvö ár lék hann  með Grindavík í Dominos deild karla. 

 

Hann var frábær fyrir Grindavík síðasta tímabil og endaði með 16,6 stig og 6,8 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var valinn besti leikmaður Grindavíkur á lokahófi félagsins fyrir nokkrum dögum. 

 

Hlynur Bæringsson og Tómas Þórður Hilmarsson endurnýjuðu samninga sína við félagið og leika því áfram með liðinu. Arnar Guðjónsson er nýr þjálfari liðsins og því ljóst að spennandi tímar eru framundan í Garðabænum.